
Geti sparað 45 milljónir í lóðakostnaði
„Það er engin ástæða á Íslandi til þess að lóðir séu takmarkað framboð. Við búum i stóru landi og höfum mikið pláss, þess vegna erum við að skipuleggja ný hverfi. Við seljum ekki lóðirnar með hagnað að leiðarljósi heldur erum við í þeim viðskiptum að þjónusta fólk. Til að geta þjónustað fólk þurfum við að leggja til lóðir og fólk þarf að geta byggt þarna og búið þarna.“
Elliði segir að miklu muni á lóðarkostnaði. Þannig kosti lóð fimmtán til tuttugu milljónir króna í Reykjavík, þegar við bætist vaxtakostnaður í 25 ár muni 45 milljónum að byggja í Ölfusi þar sem lóðin kosti ekkert umfram gatnagerðargjöld heldur en á höfuðborgarsvæðinu.
Uppfært: Upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar gerir athugasemd við fréttina og segir rangt hjá bæjarstjóranum í Ölfusi að tala um fimmtán til 20 milljónir króna sem lóðaverð í Reykjavík. Þannig hafi byggingarréttur og gatnagerðargjöld í nýlegu útboði lóða í Úlfarsárdal numið 42.550 krónum á fermetra. Samkvæmt því myndi lóð fyrir 220 fermetra hús kosta 9,4 milljónir króna. Þá sé dæmi um að gatnagerðargjald fyrir ákveðna einbýlishúsalóð í Ölfusi sé um fjórar milljónir króna. Svo munurinn á lóðunum sé miklu mun minni en ráða megi af tali bæjarstjórans í Ölfusi.