Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Geta vel framleitt meira

03.07.2012 - 17:37
Mynd með færslu
 Mynd:
Innlendir framleiðendur prjónavöru segjast vel geta tekið að sér fleiri verkefni, hönnuðir og seljendur leiti hins vegar til útlanda eftir ódýru vinnuafli. Breyta þurfi reglum svo framleiðslulands sé getið.

Handverksfólk og verkalýðsfélög norðan heiða hafa gagnrýnt að vörur, eins og lopapeysur, sé framleiddar erlendis og kallaðar íslenskar. Seljendur segja á móti að innlendir framleiðendur anni ekki eftirspurn og því sé farið með íslenskan lopa til útlanda til að vinna úr honum vörur.

Logi Guðjónsson, framkvæmdastjóri Glófa, stærsta framleiðanda prjónavöru á Íslandi, segir að fyrirtækið nýti ekki alla sína framleiðslugetu.

„Við erum að finna það núna að það hefur aukist innflutningur á hliðstæðum vörum og okkar og í sumum tilfellum getum við kallað þetta eftirlíkingar á okkar vörum sem er verið að flytja inn aðalega frá Kína. Þetta er selt mun ódýrara og bitnar á okkar sölu. Það er gefið í skyn að þetta séu íslenskar vörur og okkur sárnar það náttúrulega en heiðarleg samkeppni, við erum ekkert hræddir við hana,“ segir Logi.

Bryndís Eiríksdóttir, framkvæmdastjóri Handprjónasambands Íslands, tekur í sama streng. Ekki sé leitað mikið til þeirra eftir vinnuafli.

„Ég hef þó fengið þau svör þegar ég hef ekki getað lækkað verðið meira heldur en ég hef getað, þá sé betra að fara með þetta til Kína og þar verði þetta leyst fyrir mun minni pening,“ segir Bryndís.

Bryndís segir þetta slæma þróun og ótækt að framleiðslulands sé ekki getið á vörunum. Breyta þurfi reglum þar að lútandi. „Ekki bara okkar vegna heldur vegna ferðamannanna einnig, því þeir vilja vita hver er framleiðandinn og hvar er þetta framleitt,“ segir hún.