Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Geta látið reyna á skráningu Húh!

26.03.2018 - 09:16
Mynd með færslu
 Mynd: Borgþór Arngrímsson - RÚV
Hver sá sem vill framleiða fatnað merktan Húh getur látið reyna á vörumerkisskráningu þess hjá Einkaleyfastofu, ef viðkomandi telur að vörumerkið sé of almennt til að hægt sé að eigna einum manni það. Líka ef viðkomandi framleiddi slíkan varning áður en óskað var eftir vörumerkisskráningunni. Þetta sagði Erla Skúladóttir, lögfræðingur og sérfræðingur í vörumerkjarétti, í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Erla var þangað komin til að ræða vörumerkjadeilu um Hú/h, kallið sem stuðningsmenn íslenska landsliðsins í fótbolta hafa tónað með klappi sínu til stuðnings liðinu. Hugleikur Dagsins greindi frá því fyrir helgi að maður hefði haft samband við sig og sagst eiga réttinn á að nota húh! á klæðnað. Því gæti Hugleikur ekki haldið eigin bolaframleiðslu áfram nema í samráði við sig. Sá hafði skráð vörumerkið hjá Einkaleyfastofu.

Notkun og skráning geta stofnað vörumerkjarétt

Erla Skúladóttir sagði í Morgunútvarpinu að vörumerkjaréttur gæti bæði stofnast með notkun og skráningu vörumerkis. „Þannig að ef einhver telur sig hafa notað húið eða líkt vörumerki áður en umsókn var lögð inn um þetta tiltekna vörumerki, þessa skráningu, sem virðist hafa verið í byrjun júlí 2016, þá ætti hann raunverulega betri rétt til merkisins og hefði þá eitthvað í höndunum til að fara fram á ógildingu merkisins.“

Erla sagði að fataframleiðendur gætu líka látið reyna á þetta ef þeir teldu Húh! of almennt til að hægt sé að skrá það sem vörumerki. 

Óútkljáð mál

Erla lagði áherslu á að ekki væri búið að útkljá málið milli Hugleiks og Gunnars Þórs Andréssonar, sem skráði vörumerkið, og því óljóst hvort Hugleikur megi framleiða boli sína eða ekki. „Það er augljóst að þarna er ekki um sama merki að ræða,“ sagði Erla. Þá þurfi að skoða hvort þetta séu sambærileg merki. Þar verði að skoða líka stöðu Hugleiks sem listamanns sem tjái sig um málefni líðandi stundar, þar komi til sögunnar höfundarréttur listamannsins. Hún segir að ekkert mat hafi farið fram á vegum stjórnvalda eða dómstóla um hvort Hugleikur megi nota Hú í verkum sínum. „Þetta er ekki útkljáð.“

„Án þess að ég sé að setjast í dómarasæti í þessu máli þá kannski finndist mér ólíklegt að þessi tiltekna notkun brjóti í bága við þennan skráða rétt,“ sagði Erla.

Erla segir að Einkaleyfastofa hafi ekkert vald til að banna einum eða neinum notkun vörumerkis. Hún fari aðeins yfir umsóknir; skoði hvort almenn skilyrði vörumerkis séu uppfyllt og að þau séu ekki of yfirgripsmikil til að hamla starfsemi annarra fyrirtækja á sama sviði. Einkaleyfastofa taki svo ákvörðun um skráningu vörumerkis, sem er síðan birt opinberlega í Einkaleyfatíðindum. Frá þeirri birtingu hefst tveggja mánaða andmælafrestur. Þá getur hver sem er andmælt skráningunni og komið í veg fyrir að hún taki gildi ef fyrir því eru gild rök.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV