Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Geta fengið helming skattaundanskota til baka

19.03.2019 - 18:23
Mynd með færslu
 Mynd:
Danska ríkisstjórnin telur sig geta endurheimt nærri helming þeirra skatttekna sem fjársýslumenn hafa komið undan. Karsten Lauritzen, fjármálaráðherra Danmerkur, greindi frá þessu á fréttamannafundi í dag.

Danska ríkissjónvarpið greinir frá. Dönsk skattayfirvöld og efnahagsbrotadeild dönsku lögreglunnar hafa rannsakað tilhæfulausar kröfur um endurgreiðslu fjármagnstekjuskatts síðastliðin fjögur ár.

Talið er að 122 milljarðar íslenskra króna hafi verið sviknir út með þessum hætti og að þetta sé umfangsmesta skattsvikamál í sögu Danmerkur.

„Eins og sakir standa getum við endurheimt stærstan hluta 5,5-6 milljarða [danskra] króna,“ segir í samantekt skattayfirvalda. Lauritzen sagði að allt að sex milljarða danskra króna, 110 milljarða íslenskra króna, myndu skila sér til baka í danska ríkissjóðinn. „Við keppumst náttúrlega við að fá alla upphæðina til baka,“ sagði ráðherrann.

Á árunum 2012 til 2015 er talið að danska ríkið hafi orðið af gríðarlegum fjárhæðum vegna krafna erlendra fjársýslumanna um að fá endurgreiddan fjármagnstekjuskatt sem þeir greiddu í Danmörku. Málið hefur verið til rannsóknar síðan í ágúst 2015. Lögreglan hefur meðal annars ákært Sanjay Shah, meintan höfuðpaur í málinu, sem býr í Dubaí í dag.

Saksóknari hefur höfðað meira en 420 sakamál á hendur 470 einstaklinga og fyrirtækja fyrir að hafa fengið endurgreiðslu fjármagnstekjuskatts, án þess að hafa átt heimtingu á því.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV