Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Geta ekki hætt að dæla niður vatni

15.10.2011 - 18:11
Mjög hefur dregið úr skjálftavirkni á Hengilssvæðinu eftir hádegið, en á annað hundrað skjálftar urðu þar í morgun. Ástæðan er sú að verið er að dæla niður affallsvatni frá Hellisheiðarvirkjun. Íbúar Hveragerðs eru óánægðir með skjálftana. Starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur hafa verið gagnrýndir fyrir að upplýsa þá ekki nógu vel um hvaða áhrif niðurdælingin gæti haft.

„Við hefðum kannski átt að huga betur að því hvað kynni að gerast þarna,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar. „En það má líka segja að þetta er nýtt. Þetta hefur ekki gerst áður á Íslandi með þessum hætti, í svona miklum mæli. Okkur finnst eðlilegt að hitta Hvergerðinga og fara i gegnum þetta með þeim,“ segir Bjarni. Aðspurður segir hann ekki hægt að hætta að dæla vatni niður nema starfsleyfi Hellisheiðarvirkjunar verði breytt. „Við þurfum að koma vatninu niður fyrir 800 metra. Þetta er þónokkuð mikið vatnsmagn, um 500 metrar á sekúndu sem við dælum niður. Nei, ég sé ekki að við getum hætt því.“