Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Geta ekki bannað lagningu sæstrengs“

23.10.2018 - 16:03
Mynd: RÚV / RÚV
Norskur lagaprófessor segir að íslensk stjórnvöld geti ekki staðið í vegi fyrir því að raforkustrengur verði lagður milli Íslands og meginlands Evrópu verði þriðji orkupakkinn samþykktur. Ekki sé hægt að neita erlendum orkufyrirtækjum að leggja hingað streng. Lögmaður sem vann greinargerð um orkupakkann segir að þessar fullyrðingar standist ekki og tengist á engan hátt samþykkt þriðja orkupakkans.

Efasemdir um þriðja orkupakkann

Innan allra stjórnarflokkanna eru efasemdir um innleiðingu þriðja orkupakkans svokallaða. Norðmenn hafa þegar samþykkt pakkann. Tilskipunin snýr einkum að sameiginlegu raforkuneti Evrópulandanna. Sett verður á laggirnar ný sameiginleg stofnun ACER, Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, sem á meðal annars að sjá um að farið sé eftir reglum á þessum markaði. Gagngvart EFTA löndunum er það ESA sem hefur þetta verkefni með höndum. Einnig verður komið upp óháðri og sjálfstæðri stofnun í hverju landi sem yrði í svipaðri stöðu og Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið. Þessi stofnun ACER hefur hins vegar verið harðlega gagnrýnd af andstæðingum þriðja orkupakkans í ljósi þess að vald hennar verði mikið. Í greinargerð sem Birgir 

Ísland ekki að afsala sér eignarhaldi

Tjörvi Pétursson hæstaréttarlögmaður vann fyrir iðnaðarráðherra kemur fram að vegna þess að Ísland er ekki tengt evrópska raforkunetinu með sæstreng nái reglur eða valdheimildir ACER mjög takmarkað til Íslands. Þriðji orkupakkinn leggi engar skyldur á Ísland að tengjast innri raforkumarkaði ESB. Hann vitnar í 194. grein Sáttmála um starfshætti ESB. Þar komi fram að ráðstafanir ESB um samtengingu orkuneta séu með fyrirvara um rétt aðildarríkis til að ákvarða með hvaða skilyrðum orkulindir þess eru nýttar, hvaða orkugjafa það velur og almenna orkuafhendingu. Niðurstaða Birgis Tjörva er að ekki sé ástæða til að óttast að með samþykkt þriðja orkupakkans væri Ísland að afsala sér eignarhaldi og ráðstöfunarrétti yfir orkuauðlindunum. Það komi skýrt fram í 125. grein EES samningsins að Ísland hafi ekki afsalað sér rétti til að ákveða með hvaða hætti orkuauðlindir eru nýttar og hvaða orkugjafa það velur.

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Peter Ørebech

Fjórfrelsið framar eignarréttinum

Peter Ørebech, lagaprófessor við háskólann í Tromsø, hefur að beiðni Heimsýnar farið yfir álit Birgis Tjörva. Heimsýn leggst gegn innleiðingu þriðja orkupakkans. Peter Ørebech er áhrifamaður innan norsku samtakanna Nei til EU sem eru systursamtök Heimsýnar. Peter tekur undir með Birgi Tjörva að 125. greinin fjalli um eignarréttinn yfir auðlindum meðal annars. Hins vegar sé það dómstóll Evrópusambandsins sem eigi síðasta orðið þegar kemur að því að túlka greinina. Dómstóllinn lítur svo á að hún eigi ekki að hindra fjórfrelsið svokallaða, frjálst flæði vöru, fólks, þjónustu og fjármagns. Fjórfrelsið standi framar eignarréttarákvæðinu.

„Með því að samþykkja þriðja orkupakkann er samþykkt að orka sé vara sem er hluti af EES-samningnum“, segir Peter. Það þýði að erfitt sé að koma í veg fyrir eða  leggja bann við útflutningi á rafmagni um sæstreng. Þá komi til sögunnar grein 11 sem bannar útflutningshindranir bæði beint og óbeint.

„Þá geta íslensk stjórnvöld ekki neitað erlendum orkufyrirtækum, til dæmis E. ON í Þýskalandi, að leggja sæstreng til Íslands“, segir Peter.

Vald ACER

En hver er þáttur stofnunarinnar ACER ef við tengjumst meginlandinu? Hann bendir á að settar hafi verið upp 35 eftirlitsstofnanir í ESB þar sem fimm þúsund manns starfi. Markmiðið sé að þessar stofnanir ráði yfir orkuauðlindunum og orkustefnunni. Þær taki við skipunum frá ACER. Hann gengur svo langt að segja að aðildarlöndin hafi ekki rétt til að hafa áhrif á orkustefnuna. Hann segir að á meðan enginn sæstrengur er sé ekkert vandamál með ACER. Vandamálið sé hins vegar að stjórnvöld geti ekki komið í veg fyrir lagningu strengs ef einhverjum dettur í hug að leggja hann til Íslands.
 

“Sú ákvörðun er ekki lengur í höndum Íslands ef pakki þrjú verður samþykktur“, segir Peter.

Norðmenn hafa samþykkt orkupakkann. Óljóst er hvað gerist ef Ísland hafnar innleiðingu hans. Peter Ørebech hefur ekki áhyggjur af því. Reglur kveði á um að þá þurfi menn að setjast niður og semja um næstu skref og freista þess að ná samkomulagi. Gangi það ekki verði reynt að leggja fram sáttatillögu.

 

Tengist ekki þriðja orkupakkanum

En hvað segir Birgir Tjörvi Pétursson  sem vann greinargerð fyrir iðnaðarráðuyneytið um  þriðja orkupakkana? Geta íslensk stjórnvöld ekki staðið í veginum eða ákveðið sjálf hvort hér verður lagður raforkustrengur? Og er það svo að svokallað fjórfrelsi sé yfirsterkara ákvæðinu um eignarréttinn í EES-samningnum? Birgir Tjörvi segir að fullyrðingar um að þriðji orkupakkinn breyti einhverju um þetta standist ekki. Það sé rangt að álykta að með tilkomu hans geti Íslendingar ekki staðið í vegi fyrir lagningu sæstrengs. Hann segir hins vegar að það sé í raun áhugavert sjónarmið að fjórfrelsisreglurnar eigi að leiða til þessarar niðurstöðu. Hann telur að Íslendingar muni hafa allt um það að segja ef ákveðið verður að leggja hingað sæstreng.

„Ef Íslendingar geta ekki komið í veg fyrir þetta vegna fjórfrelsisreglnanna þá er það staðn eins og hún er í dag algjörlega áháð þriðja orkupakkanum. Það eru engar reglur í honum sem munu virkja einhverja skyldu Íslendinga að þessu leyti,“ segir Birgir Tjörvi.

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Birgir Tjörvi Pétursson

ACER getur ekki gefið stjórnvöldum fyrimæli

Hann fellst ekki á þær fullyrðingar að Íslendingar geti ekki haft stjórn á auðlindum sínum og orkustefnu ef landið tengist orkuneti Evrópu. Þá verði það eftirlitsstofnunin ACER sem fari með það vald. Í tilfelli EFTA landanna, ESA. Birgir bendir á að Ísland hafi þegar innleitt raforkutilskipanir ESB sem feli í sér ýmsar takmarkanir svo sem samkeppnisreglur, reglur um ríkisaðstoð og fleira. Líkja megi eftirlitshlutverki ACER við hlutverk fjármálaeftirlitsins og samkeppniseftirlitsins.

„ACER getur ekki gefið fyrirmæli til íslenskra stjórnvalda eða íslenskra stofnana um það hvernig eigi að byggja upp orkukerfi eða hvernig eigi að framfylgja orkustefnu á Ísland,“ segir Birgir Tjörvi. 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV