Efasemdir um þriðja orkupakkann
Innan allra stjórnarflokkanna eru efasemdir um innleiðingu þriðja orkupakkans svokallaða. Norðmenn hafa þegar samþykkt pakkann. Tilskipunin snýr einkum að sameiginlegu raforkuneti Evrópulandanna. Sett verður á laggirnar ný sameiginleg stofnun ACER, Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, sem á meðal annars að sjá um að farið sé eftir reglum á þessum markaði. Gagngvart EFTA löndunum er það ESA sem hefur þetta verkefni með höndum. Einnig verður komið upp óháðri og sjálfstæðri stofnun í hverju landi sem yrði í svipaðri stöðu og Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið. Þessi stofnun ACER hefur hins vegar verið harðlega gagnrýnd af andstæðingum þriðja orkupakkans í ljósi þess að vald hennar verði mikið. Í greinargerð sem Birgir
Ísland ekki að afsala sér eignarhaldi
Tjörvi Pétursson hæstaréttarlögmaður vann fyrir iðnaðarráðherra kemur fram að vegna þess að Ísland er ekki tengt evrópska raforkunetinu með sæstreng nái reglur eða valdheimildir ACER mjög takmarkað til Íslands. Þriðji orkupakkinn leggi engar skyldur á Ísland að tengjast innri raforkumarkaði ESB. Hann vitnar í 194. grein Sáttmála um starfshætti ESB. Þar komi fram að ráðstafanir ESB um samtengingu orkuneta séu með fyrirvara um rétt aðildarríkis til að ákvarða með hvaða skilyrðum orkulindir þess eru nýttar, hvaða orkugjafa það velur og almenna orkuafhendingu. Niðurstaða Birgis Tjörva er að ekki sé ástæða til að óttast að með samþykkt þriðja orkupakkans væri Ísland að afsala sér eignarhaldi og ráðstöfunarrétti yfir orkuauðlindunum. Það komi skýrt fram í 125. grein EES samningsins að Ísland hafi ekki afsalað sér rétti til að ákveða með hvaða hætti orkuauðlindir eru nýttar og hvaða orkugjafa það velur.