Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Get ekki hætt að njóta mín í þessu ævintýri“

Mynd: Björg Magnúsdóttir / Björg Magnúsdóttir

„Get ekki hætt að njóta mín í þessu ævintýri“

16.03.2018 - 17:49

Höfundar

Líf hins 19 ára Ara Ólafssonar hefur umturnast á þeim tveimur vikum sem eru liðnar frá því hann sigraði Söngvakeppnina, en Ari var föstudagsgestur Síðdegisútvarpsins.

„Það er svo mikið búið að gerast á svo stuttum tíma,“ segir Ari. „Ég er búinn að vera að gigga á fullu, árshátíðir  og svoleiðis. Svo er maður einhvern veginn á flakkinu, vaknar á hverjum degi „ó fokk, hvað er ég að fara að gera í dag?“ En ég elska það, elska svona skipulagða óreiðu.“ Nýverið kom Ari fram í úrslitum forkeppni Eurovision í Litháen, og söng þar fyrir um 20.000 manns. „Það voru líka tvær milljónir sem horfðu á, þetta var ekkert smá góð upphitun fyrir Portúgal,“ segir Ari sem var hrifinn af bæði landi og þjóð. „Það voru allir svo þakklátir. Litháen er ofboðslega fallegt land, sérstaklega Vilnius. Ég fékk að vera auka dag og fór í gömlu borgina, það var alveg klikkað.“

Mynd: Tomasz Marian Kolodziejski / RÚV
Flutningur Ara á úrslitakvöldi Söngvakeppninnar.

En hvernig skyldi honum ganga að halda jarðtengingunni í öllum hamaganginum sem fylgt hefur sigrinum? „Frekar vel. En líf mitt er búið að breytast rosalega mikið. Miklu fleira fólk þekkir mig. Mér finnst það mjög gaman.“ Nýverið var Ari síðan fenginn til að dæma söngvakeppni í grunnskóla, Flatóvision. „Það minnti mig á þegar ég var lítill krakki og Björgvin Franz var að koma í skólann og skemmta, en notaði líka tækifærið til að koma boðskap á framfæri. Ég sagði við þessa krakka hvað þau væru frábær og hvað þetta væri flott keppni. Lagði áherslu á að þetta væri mikilvægt að rækta þessa hæfileika sem þau búa yfir.“

Ari er mjög vel stemmdur fyrir ferðina til Portúgals.

Ari segir að engar drastískar breytingar hafi verið gerðar á atriðinu en allt sé þetta þó í vinnslu. Og það er mikill hugur í honum. „Ég er ofboðslega vel stemmdur. Út í Litháen var 20.000 manna salur. Í Portúgal eru 10.000 manns þannig ég er í mjög góðri æfingu.“ En hvað um þær 250 milljónir sem fylgjast með í sjónvarpinu? „Maður sér þau ekki, ímyndar sér að þau séu bara nakin heima hjá sér. Ég er ótrúlega spenntur og get ekki hætt að njóta mín í þessu ævintýri,“ segir Ari Ólafsson að lokum.

Tengdar fréttir

Tónlist

Our Choice verður framlag Íslands í Eurovision