„Það er svo mikið búið að gerast á svo stuttum tíma,“ segir Ari. „Ég er búinn að vera að gigga á fullu, árshátíðir og svoleiðis. Svo er maður einhvern veginn á flakkinu, vaknar á hverjum degi „ó fokk, hvað er ég að fara að gera í dag?“ En ég elska það, elska svona skipulagða óreiðu.“ Nýverið kom Ari fram í úrslitum forkeppni Eurovision í Litháen, og söng þar fyrir um 20.000 manns. „Það voru líka tvær milljónir sem horfðu á, þetta var ekkert smá góð upphitun fyrir Portúgal,“ segir Ari sem var hrifinn af bæði landi og þjóð. „Það voru allir svo þakklátir. Litháen er ofboðslega fallegt land, sérstaklega Vilnius. Ég fékk að vera auka dag og fór í gömlu borgina, það var alveg klikkað.“