Gestum sýndur dónaskapur

23.04.2012 - 12:22
Mynd með færslu
 Mynd:
Þórir Garðarsson, sölu og markaðsstjóri Iceland Excursions, segir að það sé kominn tími til að athuga hverjir eiga rétt á því að skoða náttúruperlur Íslands. Gesti íslensku þjóðarinnar hafi verið sýndur mikil dónaskapur á laugardaginn þegar honum var meinað að skoða Kerið.

Bílar og bílstjórar frá fyrirtækinu Iceland Excursions óku með kínverska forsætisráðherrann í skoðunarferðinni um helgina þegar honum var meinað að fara að Kerinu í Gímsnesi. Þórir segir að fyrir nokkrum árum hafi forsvarsmaður Kerfélagsins haft samband við nokkur rútufyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og óskað eftir greiðslu fyrir þá farþega sem fyrirtæki kæmu með í skoðunarferðir að Kerinu. Fyrirtækin hafi ekki orðið við því og eftir það hafi þau flest hætt að fara í skipulagðar ferðir með ferðamenn að Kerinu. Þórir segir að milli fimmtíu og sextíu manns hafi verið á ferð með forsætisráðherra í gær á nokkrum tuttugu manna rútum.

Þórir segir að þessum gesti íslensku þjóðarinnar hafi verið sýndur mikill dónaskapur með að ekki ekki hafi verið hægt að verða við hans ósk um að koma við í Kerinu, einni af náttúruperlum íslands.  Hann segist ekki hafa búist við því að forsvarsmaður Kerfélagsins myndi banna forsætisráðherra að koma með gest sinn að Kerinu, sérstaklega í ljósi þess að íslenska ríkið hafi byggt upp þá aðstöðu sem þar sé, bílaplan og göngustíga.

Þórir segir að málið snúist ekki bara um Kerið heldur um náttúruperlur sem eru í einkaeigu. Geysissvæðið sé til dæmis líka í einkaeigu. hann segir tíma til kominn að fara í gegnum það hverjir eigi rétt á því að skoða náttúruperlur Íslands.