Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Gervitunglamynd af öskufokinu

18.09.2013 - 10:10
Mynd með færslu
 Mynd:
Gervitunglamynd, tekin af LANDSAT 8, sem sent var á braut um jörðu fyrr á þessu ári, sýnir vel sand og öskufok í gær. Ingibjörg Jónsdóttir dósent við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands segir gervitunglamyndir afar mikilvægar í rannsóknum á umhverfisbreytingum.

„Á þessari mynd sést ösku- og sandstormur af Mýrdalssandi og eins af Landeyjasandi. Undanfarna daga hefur verið mjög hvöss norðanátt fyrir austan og sandfokið hefur náð meira en 400 kílómetra suður af landinu,“ segir hún. 

Ingibjörg bendir á að á myndinni megi greina árfarvegi, jökla og annað. „Sigkatlarnir á Mýrdalsjökli sjást nokkuð vel en almennt fylgjast vísindamenn vel með öllum breytingum á þeim. Skýjað er yfir Eyjafjallajökli. Á myndinni sést hverni Vestmannaeyjar lenda í foki af Landeyjasandi. Þá sjást einnig mikil uppgræðslusvæði á Mýrdalssandi, beggja vegna vegarins. Sandstrókarnir af sandinum fara yfir veginn, einkum austan við Hjörleifshöfða.“ 

Myndin er frá NASA og U.S. Geological Survey (USGS), unnin á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.