Gervijólatré sífellt vinsælli

Mynd með færslu
 Mynd:

Gervijólatré sífellt vinsælli

18.12.2014 - 14:08
Aðeins um þriðjungur landsmanna verður með lifandi jólatré um þessi jól, samkvæmt nýrri könnun MMR. Gervijólatrén hafa hægt og sígandi tekið yfir. Séu jólatrjákaup skoðuð í samhengi við stjórnmálaskoðanir fólks þá er samfylkingarfólk líklegast til að kaupa lifandi tré.

MMR hefur gert könnun á því hvort það eru jólatré á heimilum fólks og þá hvernig tré; lifandi tré eða gervijólatré. Könnunin fór fram á viku tímabili nú í desember og var heildarfjöldi svarenda ríflega 1.000.

Helstu niðurstöður eru þær að lifandi jólatré eiga undir högg að sækja. Innan við þriðjungur; rúmlega 32 prósent landsmanna ætla að hafa lifandi jólatré í ár, samkvæmt könnuninni, samanborið við tæp 40 prósent fyrir tveimur árum.

Um leið ætla fleiri að hafa gervijólatré um þessi jól, eða 56 prósent, sem eru töluverð aukning á milli ára. Þá fjölgar þeim einnig sem ætla ekki að hafa jólatré í ár. Þegar niðurstöður eru greindar eftir búsetu kemur í ljós að fólk á höfuðborgarsvæðinu sækir frekar í lifandi tré en fólk á landsbyggðinni. Þá sést einnig að eftir því sem tekjur fólks eru meiri, því líklegra er það til að kaupa lifandi jólatré. 

Þegar jólatrjáakaup eru greind eftir stjórnmálaskoðunum vekur það athygli að kjósendur Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar eru líklegastir til að hafa lifandi jólatré en Framsóknarmenn sækja fremur öðrum í gervitrén. Þá eru Píratar líklegastir til að halda trjálaus jól, samkvæmt könnun MMR.