Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Gervihnattaútsendingar RÚV tryggðar

26.06.2014 - 13:42
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjármálaráðherra ætlar að sjá til þess að útsendingar RÚV um gervihnött falli ekki niður í sumar - þær séu hluti af almannaþjónustu Ríkisútvarpsins. Hann segir að tryggja verði fjármagn fyrir varanlega lausn.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að útsendingar um gervihnött myndu falla niður um mánaðamótin þar sem ekki væri fjármagn til að halda þeim áfram. Sjómenn, íbúar á svæðum þar sem útsendingar nást illa, sumarhúsaeigendur og Íslendingar í útlöndum njóta góðs af þessum útsendingum.
Árlegur kostnaður vegna þessa er um sextíu milljónir á ári og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir mikilvægt að tryggja að þessar útsendingar falli ekki niður í sumar. 

„Þess vegna erum við sammála um það að tryggja áfram fjármagn til þessarar þjónustu enda lítum við á hana sem ákveðinn þátt í grunnþjónustu Ríkisútvarpsins að koma efninu til sjófarenda og á þessi viðkvæmu svæði,“ segir Bjarni.

Árlega hefur þurft að finna fjármagn til að halda úti þessum útsendingum og Bjarni segir að finna verði varanlega lausn. „Og við munum leita leiða til þess en til skamms tíma er það aðalmálið að við tryggjum að þjónustan falli ekki niður,“ segir Bjarni.

En kemur til greina að þetta verði í einhverskonar áskrift? „Mér finnst það koma til skoðunnar og það hefur verið rætt í ríkisstjórn að það sé áhugi á því að skoða með hvaða hætti væri hægt að útfæra það en það hefur ekki verið skoðað til hlítar og á meðan svo er þá er ekkert hægt að úttala sig um það.“