
„Gerum það sem hægt er að gera“
„Atburðir í Reynisfjöru eru kveikjan að fundinum, en við fórum yfir það hvað hægt er að gera þar og á ýmsum öðrum stöðum hér á svæðinu, þar sem líka verður að bregðast við“, segir Ásgeir. Hann segir að fjöldi ferðamanna í febrúar sé ótrúlegur og fjölgunin langtum meiri en hægt hefði verið að ímynda sér. Til dæmis væri nýbúið að hanna bílastæði við Reynisfjöru þar sem hefði verið gert ráð fyrir 8-9 rútum á staðnum í einu. Nú hefðu lögreglumenn talið allt að 20 rútur á staðnum í einu síðustu daga. „Við fórum gaumgæfilega yfir það á fundinum hvað hægt væri að gera strax og sem fyrst“.
EFLA sér um verkið
Á Almannavarnafundinum í Vík voru sérfræðingar frá Verkfræðistofunni Eflu sem heldur utan um verkið. Þar voru liðlega tveir tugir manna, sameiginleg Almannavarnarnefnd Rangárvallasýslu og Skaftafellssýslu, fulltrúar Almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra, lögreglunnar á Suðurlandi, fulltrúar björgunarsveita og heimamenn sem þekkja vel til.