Flateyjarbók er stærst íslenskra miðaldahandrita, 225 ríkulega myndskreytt kálfskinnsblöð, skrifuð á árunum 1387-1394 af Jóni presti Þórðarsyni og Magnúsi presti Þórhallssyni. Hún inniheldur einkum konungasögur, þeirra þekktastar eru Ólafs saga Tryggvasonar og Ólafs saga helga. Nafnið er dregið af Flatey á Breiðafirði. Þar bjó Jón Björnsson, fyrsti skráði eigandi Flateyjarbókar eftir að upprunalegur eigandi, Jón Hákonarson, var allur.
Brynjólfur Sveinsson, biskup í Skálholti, eignaðist bókina árið 1647 og níu árum síðar, 1656, sendi biskup Friðriki þriðja Danakonungi handritið. Íslendingar flykktust svo á hafnarbakkann í Reykjavík í apríl 1971 til að fylgjast með Flateyjarbók og Konungsbók Eddukvæða koma til landsins um borð í dönsku varðskipi. Þaðan voru handritin flutt í Háskólabíó þar sem Gylfi Þ. Gíslason menntamálaráðherra tók við þeim úr hendi Helge Larsen, dansks starfsbróður síns.