Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Gert ráð fyrir 500 íbúðum á Húsavík

26.09.2015 - 09:41
Gert er ráð fyrir að íbúum á Húsavík fjölgi um 350 þegar kísilverksmiðja Bakka tekur til starfa í lok árs 2017. Líklega verður að byggja nýjan leikskóla og talsvert að íbúðum í bænum. Aðalskipulag gerir ráð fyrir allt að 500 íbúðum.

Snæbjörn Sigurðsson verkefnastjóri Norðurþings segir aukinn áhuga vera á byggingu íbúða auk þjónustu- og iðnaðarhúsnæðis. Gildandi aðalskipulag gerði ráð fyrir talsvert meiri uppbyggingu. Reiknað var með að íbúum gæti fjölgað um meira en þúsund þegar uppi voru hugmyndir um byggingu álvers á Bakka. Nánast er búið að ganga frá skipulagi á 65 íbúðum sem hægt væri að byggja með skömmum fyrirvara.

„Þannig að samkvæmt aðalskipulagi er gert ráð fyrir því að hægt sé að byggja hérna 500 íbúðir. Þannig að skipulagslega erum við vel undirbúin undir það og þyrftum ekkert langan tíma til þess að fjölga þá lóðum enn frekar.“ Á reit við miðbæinn er gert ráð fyrir að byggja megi 200 íbúðir. Hugsanlega megi svo nota íbúðir, sem bærinn á fyrir, í eins konar búsetukerfi. Snæbjörn segir hreyfingu vera á fasteignamarkaði en staðan sé sú að verð á húsnæði er töluvert undir byggingarkostnaði.

„Þannig að á meðan það eru hús til sölu sem eru þegar byggð þá er erfitt að sjá fyrir sér mikla uppbyggingu á nýju húsnæði en það er ljóst að það þarf að bæta hér við töluverðu af húsnæði til þess koma fyrir öllum þeim íbúum sem við viljum koma inn á svæðið.“

En hvað með skólakerfið - getur það tekið á móti fleiri nemendum? „Núverandi leikskóli er mjög þétt setinn og fyrirséð að það muni fjölga börnum á leikskólaaldri þá gæti þurft að leysa það með því að hugsanlega byggingu nýs leikskóla.“ Skólastjóri í Borgarhólsskóla segir að vel sé hægt að taka við fleiri nemendum án þess að bæta við starfsfólki. „Það þarf fyrst og fremst að taka tillit til þarfa þeirra barna sem þá kæmu. Þessi skóli hefur áður rúmað 450 nemendur sem nú eru um 300 þannig að plássið ætti að vera til staðar. Það er þá frekar spurning með fjárhaginn og hvaða peningur myndi fylgja þá í húsbúnað og kennslugögn og slíkt.“