Gert að velja hvort börnin eða faðirinn lifir

01.03.2017 - 14:03
In this photo taken Thursday, Feb. 16, 2017, a South Sudanese refugee woman sits with her child at a refugee collection center in Palorinya, Uganda. More than 100,000 people have fled a single county in South Sudan in just three months as civil war
 Mynd: AP
Á svæðum í Suður-Súdan ríkir hungursneyð og hún er af mannavöldum, sprottin af erjum og átökum leiðtoga landsins sem knúnir eigin framagirnd láta fólkið í landinu líða. Þetta sagði í yfirlýsingu sem var gefin út þegar Sameinuðu þjóðirnar lýstu hungursneyð yfir opinberlega fyrir um viku. Það er nokkuð sem ekki hefur verið gert um árabil. Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, telur að það versta sem gæti gerst sé orðið að veruleika. 

Nærri fimm milljónir íbúa Suður-Súdans komast ekki án þess að fá mataraðstoð. Fleiri hafa flúið þaðan til nágrannaríkisins Úganda en freistuðu þess að komast yfir Miðjarðarhafið til Evrópu í fyrra. Í þrjú ár hafa erjurnar torveldað bændum að yrkja jörðina. Þar sem mat er að fá hefur verðið margfaldast, verðbólgan jafnvel farið yfir 800%.  Íbúarnir hafa fáa kosti og engan góðan - að falla, svelta eða flýja.

Næststærstu flóttamannabúðir í heimi

Flestir flýja yfir landamærin til Úganda þar sem settar hafa verið upp flóttamannabúðir. Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri hjá Rauða krossinum er nýkominn frá Úganda. Rauði kross Íslands ákvað í fyrrasumar að styðja þar við flóttamenn frá Suður-Súdan. Þá var því spáð að í desember yrðu um 40 þúsund manns í búðunum. Sú spá hækkaði hratt og í búðunum í Bidibidi sem RKÍ styður við eru nú 273 þúsund manns. 

Þær eru næststærstu flóttamannabúðir í heimi, en ekki þær einu á svæði sem er um 200 ferkílómetrar að stærð. Þar eru tvennar, jafnvel þrennar eða fernar búðir. Aðbúnaðurinn er misjafn, sums staðar tekur nánast ekkert við en í Bidibidi búðnum hefur tekist að byggja upp lágmarksþjónustu. Fólk býr í skýlum, þar sem segldúk er tjaldað yfir trjágreinar, kannski fimm til tíu manns á nokkrum fermetrum. Nú er regntímabilið að ganga í garð og þá breytist allt svæðið í forarsvað.

Nær allt vatn þarf að flytja til búðanna

 Vatn er af mjög skornum skammti, 15% af öllu drykkjarvatni og öllu vatni kemur af svæðinu sjálfu. Annað vatn þarf að flytja inn með trukkum. Þá er það Rauði krossinn fyrst og fremst sem er að framleiða vatn, með því að dæla upp úr ánni Níl og brunni og annarri sprænu.

Reyndar á tveimur stöðum nú úr ánni Níl, eftir að það koma neyðarsveit frá Rauða krossinum bara í síðustu viku og við erum að dæla rúmlega 2 milljónum lítra af vatni á dag sem er allt sett á bíla sem flytja allt vatn inn á svæðið þar sem flóttamennirnir eru. Þetta er í rauninni einn bíll á 8 mínútna fresti. 

Hreinlætismál eru með því sem hvað erfiðast er að eiga við í búðunum, örfáir kamrar og klósett og miklar líkur á pestum, kóleru og malaríu. 

Og svo er ofboðslega heitt. Þegar ég var þarna fyrir rúmri viku var  frá 35 upp í 40 gráður. Hitinn hafði farið yfir 40 stig, ef þú lagðir hendina á jörðina gastu bara haldið henni þar í nokkrar sekúndur. Þetta er í dagsbirtu, svo kemur myrkur og þá er bara myrkur. Það er nánast bara engin lýsing á svæðinu og aðstæður eru bara alveg svaðalega erfiðar.  

Átökin hafa breyst

Atli segir að fólk í flóttamannabúðunum segi að það sé ekki lengur í  miðju átaka milli tveggja vígasveita eða herja, heldur séu almennir borgarar orðnir skotmörkin sjálfir. 

Þegar að lágu niðri bardaga milli stjórnarhers og uppreisnarmanna, þá beindu þessir vopnuðu menn úr báðum fylkingum raunverulega kröftum sínum og vopnum að óbreyttum borgurum. Fóru um þorp og bæi, rændu, nauðguðu drápu. Fólk, sem við hittum þarna, lýsti því hvernig fólk var bara tekið af lífi eitt af öðru. Og svo heyrðum við ofboðslega ljótar sögur líka, og það voru að minnsta kosti þrjú eða fjögur tilfelli um það. Þegar kom fjölskylda, sem reyndi að fara yfir landamærin, hjón með þá börn, og lenti í hópum vopnaðara manna, af því að það var karlmaður með í för þá voru eiginkonunni gefnir tveir kostir, annað hvort að þeir myndu drepa börnin þeirra eða hún drepa manninn sinn. Þannig að þetta er virkilega ljót saga en ekki einsdæmi.

Brýn þörf er á því að byggja upp stuðning við hrjáð fólk, sem hefur orðið fyrir miklum áföllum. Margir sem komi í búðirnar beri áberandi merki um sálræn áföll og það þurfi líka að hjálpa starfsmönnum og sjálfboðaliðum að höndla þessar ljótu sögur og erfiðleikana og það er verkefni sem Rauði kross Ísland ætlar að taka þátt í.

In this photo taken Saturday, Feb. 25, 2017 and released by the World Food Programme (WFP), a family waits for food assistance to be distributed in Thonyor, Leer County, one of the areas in which famine has been declared, in South Sudan. The United
Fólk sem bíður eftir matargjöfum á einu þeirra svæða í Suður-Súdan þar sem hungursneyð hefur verið lýst yfir.  Mynd: AP

 Stjórnvöld og íbúar á svæðinu hafa tekið flóttafólkinu vel - enda flúðu margir þeirra sem búa í grennd við Bidi-Bidi búðirnir nú, frá Súdan á tíunda áratugnum og eftir það. Atli segir litlar líkur á því að sú hálf milljón manna, sem er nú í flóttamannabúðum á þessu svæði, snúi heim í bráð. Hugur fólks sem lent hefur í hremmingum eins og það lýsti, stefni ekki endilega þangað. 

Rauði krossinn getur komið vistum inn í Suður-Súdan

Alþjóða rauði krossinn hefur verið í Suður-Súdan frá stofnun segir Atli lengur  í Súdan. Þetta er næststærsta einstaka aðgerð Alþjóða rauða krossins og umfangsmikið starf í gangi.

Vandinn er hins vegar svo gríðarlega stór að það þurfa miklu fleiri að koma að. Rauði krossinn hefur ákveðna sérstöðu, hann er sá aðili sem getur oft talað við aðila átaka og fengið leyfi til að dreifa gögnum og það gerum við. Það eru ekki allir sem að njóta þess og þar með líða þolendur átaka fyrir það og kannski fá ekki aðgang að þeim mannúðarráðstöfunum sem þeir þurfa á að halda. Þessi vandi er svo mikið mikið umfangsmeiri en nokkurn hefur órað fyrir og það er ekkert lát á. Það hefur verið talað um að minnsta kosti 300 þúsund manns komi  til viðbótar þeim 500 þúsund sem komu á þessu ári bara frá Suður-Súdan til Úganda. 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi