Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Gert að greiða bætur vegna andláts Ellu Dísar

06.10.2017 - 15:48
Sjúkrahótel Sinnum ehf er rekið í þessu húsi við Ármúla.
Húsnæði Sinnum við Ármúla. Mynd: RÚV Kastljós
Heimaþjónustufyrirtækið Sinnum var í gær dæmt til að borga Rögnu Erlendsdóttur þrjár milljónir króna í miskabætur fyrir mistök starfsmanns sem leiddu til dauða átta ára dóttur Rögnu, Ellu Dísar Laurens. Reykjavíkurborg var einnig krafin um bætur fyrir að hafa falið Sinnum að annast Ellu Dís í skólanum en borgin var sýknuð af kröfunni enda var það ekki álitið stórkostlegt gáleysi.

Ella Dís fæddist árið 2006 og þjáðist frá 15 mánaða aldri af ólæknandi taugasjúkdómi. Hún þurfti af þeim sökum alla tíð mikla aðstoð og umönnun, meðal annars eftir að hún hóf grunnskólagöngu í janúar 2013. Þá gerði Reykjavíkurborg samning við Sinnum um þjónustu við Ellu Dís í skólanum, þar sem hún var í sérstökum vinnustól og hafði aðstöðu með tækjum og sjúkrarúmi sem hún þyrfti að hvíla sig. Hún var tengd við öndunarvél í gegnum barkatúbu í hálsi.

Skorti nauðsynlega þekkingu og reynslu

Að jafnaði fékk Ella Dís fylgd þroskaþjálfa í skólann, en einn daginn, í mars 2014, forfallaðist hann og þá var annar, ólærður starfsmaður fenginn til að fylgja henni. Þann dag færðist öndunartúba Ellu Dísar úr stað þegar hún var færð yfir í vinnustól, með þeim afleiðingum að súrefnismettun hennar féll og hún hlaut af mikinn heilaskaða sem að lokum dró hana til dauða. Hún lést tæpum þremur mánuðum síðar, í júní 2014.

Niðurstaða dómsins er sú að starfsmanninn hafi skort tilfinnanlega nauðsynlega þekkingu og reynslu til starfans. „Hún hefur enga formlega menntun umfram grunnskólanám og ekkert bendir til að hún hafi fengið nægilega fræðslu um umönnun barna með barkaraufarrennu sem eru háð öndunarvél, eða verklega þjálfun í að soga niður í barkaraufartúbu, anda fyrir sjúkling með Ambu belg eða skipta um barkaraufartúbu á skjótan og öruggan hátt, svo eitthvað sé nefnt,“ segir í dómnum.

Því hafi engar forsendur verið til að gera ráð fyrir að hún gæti borið sjálfstæða ábyrgð á velferð Ellu Dísar. „Í því að fela þessum starfsmanni verkið fólst stórkostlegt gáleysi,“ segir dómurinn, sem Sinnum beri ábyrgð á. Ragna gerði kröfu um fimm milljónir króna í bætur en dómurinn telur að þrjár séu hæfilegar.

Fordæmalaust og áfrýjun því líkleg

Fréttastofa falaðist eftir viðtali við Stellu Víðisdóttur, framkvæmdastjóra Sinnum, vegna málsins en var vísað á lögmann félagsins, Stefán Geir Þórisson.

„Þetta er löng sorgarsaga þetta mál. Ragna hefur alla samúð fyrirtækisins. Það er hundleiðinlegt að vera að glíma um þetta fyrir dómstólum og erfitt fyrir alla hlutaðeigandi að vera að standa í þessu.“ segir hann. „Hins vegar, út frá lögfræðilegum sjónarhóli, þá held ég að þetta sé þannig mál að við höfum ekkert fordæmi við að styðjast hér á landi,“ bætir hann við. Málið sé í raun einstakt. Spurður á hvaða hátt það sé einstakt varar Stefán:

 

„Þarna er verið að veita fatlaðri manneskju þjónustu – það er gerður samningur milli Reykjavíkurborgar og Sinnum þar sem eru ekki neinar sérstakar kröfur um menntun eða þjálfun manneskjunnar. Og við höfum ekki dóm um hvaða kröfur eru gerðast til aðila af þessu tagi sem eru að annast þjónustu við fatlað fólk,“ segir hann.

Fyrst og fremst af þessum sökum segir hann að líklegast sé að niðurstöðunni verði áfrýjað til Hæstaréttar, eða hugsanlega Landsréttar.

Spurður hvort málið hafi haft einhverjar afleiðingar aðrar fyrir félagið eða þann starfsmann sem um ræðir segir Stefán svo ekki vera, enda vinni starfsmaðurinn ekki fyrir Sinnum lengur. „Hún er löngu hætt,“ segir hann.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV