Gerræði hjá ríkisstjórninni

12.03.2015 - 18:29
Guðmundur Steingrímsson
 Mynd: RÚV/Kastljós
„Það er ekki utanríkisráðherra að slíta viðræðum sem Alþingi hefur ákveðið að hefja. Það er gerræði. Það verður að leggja þetta fyrir Alþingi," segir Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, um þá yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að Ísland sé ekki lengur umsóknarríki að Evrópusambandinu.

Fram kom í kvöldfréttum útvarps að utanríkisráðherra afhenti formanni ESB rétt fyrir klukkan sex bréf þess efnis að ríkisstjórnin hefði samþykkt að hún hyggist ekki taka upp aðildarviðræður við Evrópusambandið á nýjan leik. Ríkisstjórnin lítur jafnframt svo á að Ísland sé ekki lengur í hópi umsóknarríkja að Evrópusambandinu. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði í viðtali við RÚV að málinu væri lokið.

Hefur ekki umboð til að taka þessa ákvörðun
Formaður Bjartrar framtíðar var mjög undrandi þegar hann heyrði tíðindin. Hann sagði ríkisstjórnina ekki geta tekið þessa ákvörðun, það hafi verið Alþingi sem tók ákvörðun um að sækja um aðild með þingsályktun og ríkisstjórnin gæti ekki vikið sér undan því.

„Þetta er mjög alvarlegt mál, ef ríkisstjórnin telur sig geta slitið ESB-viðræðum og tilkynnt ESB um það," segir Guðmundur. Hann segir jafnframt að hvorki ríkisstjórnin né nokkur annar hafi umboð til að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið. „Það talaði enginn um það fyrir kosningar," segir Guðmundur og tiltekur að í stjórnarsáttmála sé aðeins rætt um hlé á viðræðum en ekki slit þeirra.

Algjör skemmdarverkastarfsemi
Guðmundur er ósáttur við ákvörðun ríkisstjórnarinnar. „Þetta er algjör skemmdarverkastarfsemi," segir hann og kveður þetta kalla á mjög mikla umræðu um það hvað ríkisstjórnin ætli sér. Guðmundur bendir á að það hafi vakið hörð viðbrögð í þinginu og samfélaginu í fyrra þegar ríkisstjórnin hugðist slíta aðildarviðræðum. Hann vísar þar til tillögu sem utanríkisráðherra lagði fram í þinginu. Hún náði ekki fram að ganga.

„Þetta er stóralvarleg ákvörðun líka. Það að sækja um aftur er ferli sem krefst samþykkis 28 þjóðþinga Evrópusambandsins," segir Guðmundur og skilur ekki hvernig ríkisstjórnin telji stöðu Íslands betri eftir þá breytingu heldur en nú er. Þetta sé ákvörðun sem ríkisstjórnin hafi tekið algjörlega án umræðu."

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi