Gerist í dystópískum heimi á Vestfjörðum

Mynd með færslu
 Mynd: Between Mountains

Gerist í dystópískum heimi á Vestfjörðum

30.01.2018 - 11:15

Höfundar

Segja má að heilt bæjarfélag fyrir vestan hafi komið að gerð fyrsta tónlistarmyndbands hljómsveitarinnar Between Mountains. Nýjasta lag sveitarinnar kemur út í dag, það heitir Into the Dark og er tónlistarmyndbandið frumsýnt hér á menningarvef RÚV.

Tvær sextán og sautján ára stelpur frá Vestfjörðum skipa Between Mountains, þær Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Ásrós Helga Guðmundsdóttir. Þær vöktu fyrst athygli á síðasta ári þegar þær sigruðu í Músíktilraunum og hafa komið víða fram síðan. Between Mountains spilaði á nokkrum tónleikum á Iceland Airwaves hátíðinni í haust þar sem hún vakti m.a. áhuga David Fricke, blaðamanns Rolling Stone, sem nefndi sveitina eina af þeim áhugaverðustu á hátíðinni.

Tónlistarmyndbandið við Into the Dark er skrifað og leikstýrt af Hauki Björgvinssyni og gerist það í dystópískum heimi á Vestfjörðunum þar sem litríka fólkið í pastelfötunum er búið að hneppa fólkið í gráu jakkafötunum í þrældóm til að líkja eftir öllum hreyfingum þeirra, öllum stundum. Með aðalhlutverk fara þær Katla Vigdís og Ásrós, sem og Ingólfur Björn Sigurðsson listdansari og leikari og Oddur Júlíusson leikari. Danshöfundur var Katrín Gunnarsdóttir, sem valin var dansari ársins á Grímunni 2017.

Myndbandið var tekið upp á Ísafirði, Bolungarvík, Suðureyri og Óshlíð um miðjan nóvember í fyrra. Bæjarbúar höfðu þá æft danshreyfingar Katrínar þrisvar í viku í um níu vikur. „Það var sérstaklega gaman og krefjandi að mynda kyndlasenurnar á sjnóflóðagörðunum í Bolungarvík, sem minna helst á Maya-pýramída í hvítum fjöllum,“ segir Haukur Björgvinsson, leikstjóri.

Hann segir að söguþráður myndbandsins komi frá nokkrum stöðum. „Myndmálið í texta lagsins er mjög inspírandi og svo kviknuðu alls konar hugmyndir tengdar Vestfjörðum. Það er eitthvað ótrúlegt í gangi á þessu svæði og ég fór að hugsa út í það að það væru kannski einhverjir töfrar þarna í snjósköflunum og pastellituðu eitís húsunum,“ segir Haukur, sem bjó á Ísafirði og í Hnífsdal sem barn en hafði ekki komið þangað í um tvo áratugi. Þegar hann heimsótti svæðið aftur kviknuðu alls konar hugmyndir.

Mynd með færslu
 Mynd: Between Mountains
Ásrós Helga og Katla Vigdís

„Ég sá fyrir mér einhvers konar ritual eða blót, þar sem tvær manneskjur sem væru í forsvari fyrir tvo mismunandi hópa tækjust á í dansglímu. Mér fannst líka skemmtilegt að þessar tvær manneskjur væru mjög ólíkar, til dæmis unglingsstelpa og eldri maður. Næst lá við að ef stelpan ynni glímuna væri karlinn fastur í því að hreyfa sig nákvæmlega eins og hún það sem eftir væri. Þá fór maður að velta því fyrir sér hvernig það væri ef heilt samfélag væri byggt á svona pörum þar sem einn stjórnar og hinn fylgir eftir,“ segir Haukur.

Chanel Björk Sturludóttir sá um framleiðslu myndbandsins með aðstoð frá foreldrum stúlknanna. Hákon Sverrisson sá um myndatökuna ásamt Ástþóri Knudsen og Róbert Magnússyni en eftirvinnsla var í höndum Árna Gests Sigfússonar.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Þrjú hafa unnið Músíktilraunir

Tónlist

Fyrsta lagið hét „Pabbi minn er bestur“

Tónlist

Sigurhljómsveitin mánaðargömul

Tónlist

Between Mountains sigurvegari Músíktilrauna