Gerist eiginlega á djamminu

Mynd: RÚV / RÚV

Gerist eiginlega á djamminu

15.05.2018 - 16:38
Nemendur á leikarabraut Listaháskóla Íslands sýna um þessar mundir útskriftarverk sitt, Aðfaranótt. Verkið er afrakstur 8 vikna ferlis og er sýnt í Kassanum í samstarfi við Þjóðleikhúsið.

Þórey Birgisdóttir og Hákon Jóhannesson eru hluti af útskriftarbekknum og sögðu okkur aðeins frá verkinu. Auk þeirra eru Árni Beinteinn Árnason, Ebba Katrín Finnsdóttir, Elísabet Skagfjörð, Eygló Hilmarsdóttir, Hlynur Þorsteinsson og Júlí Heiðar Halldórsson í bekknum sem að útskrifast núna í vor.

Mynd með færslu
 Mynd: Leifur Wilberg Orrason

Útskriftarsýningin er unnið svipað og leikrit eru unnin í leikhúsum í dag, venjulegir vinnudagar frá 8-4 og svo á kvöldin þegar nær dregur frumsýningu. „Verkið fjallar um ákveðna birtingarmynd ofbeldis og þá er sérstaklega skoðað næturlífið og hvernig fólk hegðar sér þegar áfengi er við hönd,“ segir Hákon. „Það gerist eiginlega á djamminu,“ bætir Þórey við.

Verkið er íslenskt og skrifað af Kristjáni Þórði Hrafnssyni sérstaklega fyrir þennan útskriftarhóp. Það kom inn í gegnum eins konar samkeppni sem að Listaháskólinn hefur haldið fyrir leikskáld þar sem þeim gefst tækifæri á að skrifa fyrir útskriftarbekki. Una Þorleifsdóttir er leikstjóri.

Mynd með færslu
 Mynd: Menningin - RÚV

Ekki nóg með að vera að sýna útskriftarsýninguna heldur var bekkurinn einnig með útvarpsleikrit á Rás 1 um síðustu helgi sem heitir Lík af aumingja og er eftir Tyrfing Tyrfingsson. Það var öðruvísi að leika í útvarpinu en enginn þeirra hafði sérstaka reynslu í því, þau voru þó sammála um að það hefði verið mjög skemmtilegt. Leikritið er enn hægt að hlusta á hér í spilara RÚV.

Bókanir á sýninguna Aðfaranótt fara fram á tix.is en aðgangur er ókeypis. Þórey og Hákon voru gestir í Núllinu en hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.