Gerir upp kosningabaráttuna við Donald Trump

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

Gerir upp kosningabaráttuna við Donald Trump

23.08.2017 - 17:43

Höfundar

Hillary Clinton sendir í næsta mánuði frá sér bókina What Happened eða Það sem gerðist þar sem hún segir frá baráttunni í fyrra við Donald Trump um embætti forseta Bandaríkjanna. Hún greinir frá mistökunum sem hún gerði í kosningabaráttunni, hvað henni fannst um mótherja sinn, hvernig hún tókst á við að tapa fyrir honum og jafna sig á því.

Hillary Clinton las í dag upp stuttan kafla úr bókinni í morgunþætti MSNBC sjónvarpsstöðvarinnar Morning Joe. Þar segir hún frá óþægindunum sem fylgdu því að hafa hann nánast andandi niður um hálsmálið á henni í öðrum sjónvarpskappræðum þeirra.

„Tveimur dögum áður fengu jarðabúar að heyra hann monta sig af því að káfa á konum,“ segir Clinton. „Nú vorum við saman á litlu sviði og það var sama hvar ég stóð, alls staðar stóð hann þétt upp við mig, starði á mig, geiflaði sig. Þetta var ótrúlega óþægilegt. Hann andaði nánast niður um hálsmálið á mér. Mig hryllti við þessu.

Þetta var eitt af þeim augnablikum þegar maður óskar þess að geta ýtt á hlétakkann og spurt alla viðstadda: Jæja, hvað mynduð þið gera? Á ég að halda andlitinu, halda áfram að brosa og láta sem ekkert sé þótt hann standi allt of nálægt mér? Eða ætti ég að snúa mér við, horfa í augun á honum og segja hátt og skýrt: Færðu þig, viðrinið þitt. Farðu frá mér. Ég veit að þér finnst gaman að koma ógnandi fram við konur. Þú hræðir mig ekki svo þú skalt færa þig.

Ég valdi fyrri kostinn. Lét sem ekkert væri og nýtti mér margra ára reynslu af því að eiga við erfiða karlmenn sem reyndu að koma mér úr jafnvægi. Eigi að síður greip ég hljóðnemann afar fast. Ég velti því þó fyrir mér hvort ég hefði átt að velja hinn kostinn. Það hefði svo sannarlega orðið tilþrifameira fyrir sjónvarpsáhorfendur. Kannski hef ég tamið mér um of að halda andlitinu, bíta mig í tunguna, bora nöglunum inn í kreppta hnefana, brosa stöðugt og mæta umheiminum án þess að sýna svipbrigði.“

Hér má sjá innslagið í morgunþætti MSNBC þar sem Hillary Clinton les upp úr bók sinni.