Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Gerir ráð fyrir kosningum í október

27.07.2016 - 09:12
Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson / RÚV
Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerir ráð fyrir að kosið verði upp úr miðjum október. Prófkjör í öllum flokkum miði að því að kosið verði í haust. Nokkrum venjulegum þingmálum segir Vilhjálmur að sé æskilegt að ljúka fyrir kosningar, en kannast ekki við sérstakan málalista sem þurfi að klára.

„Samkvæmt því sem lagt var upp með í apríl þá geri ég ráð fyrir því að kosningar verði upp úr miðjum október, 15., 22., 29. október. Ef þingstörf dragast þá gætu þær orðið fyrstu vikur í nóvember, en það hefur ekkert annað verið rætt við mig en það að það verði kosið í haust,“ sagði Vilhjálmur Bjarnason í Morgunútvarpi Rásar 2 í dag.

Vilhjálmur segir það ankannanlegt í þingræðisríki þar sem kosið sé til fjögurra ára, skuli þurfa að kjósa eftir aðeins þrjú. Staðan sem komið hafi upp í vor sé þó líklega fordæmalaus.

„Forsætisráðherra sem þá sat missti fullkomlega traust þjóðarinnar og hann missti traust samstarfsflokksins, og hann sagði af sér. Þá var í raun samið um að það yrði kosið í haust og viðtöl við þann forsætisráðherra sem tók við, sem er reyndar varaformaður Framsóknarflokksins, og formann Sjálfstæðisflokksins, þau eru til vitnis um það.“

Nokkur venjuleg þingmál segir Vilhjálmur að sé æskilegt að ljúka fyrir kosningar, en kannast ekki við sérstakan málalista sem þurfi að klára

„Ég hef aldrei séð þann málalist. En það eru nokkur mál sem eru komin mjög langt, og eru bara venjuleg þingmál sem er eðlilegt að klára. Til dæmis lög um vátryggingafélög, breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, lög um vexti og verðtryggingu sem eru reyndar ekki um verðtryggingu heldur gengistryggð lán. Það eru mál af þessu tagi sem eru bara hefðbundin þingmál sem eru komin langt og er algjör óþarfi að klára ekki.“