Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Geri það sem er í hjartanu“

Mynd:  / 

„Geri það sem er í hjartanu“

15.02.2019 - 14:10

Höfundar

Alexandra Chernyshova kom til Íslands frá Úkraínu, hámenntuð söngkona og kennari, og hefur sannarlega látið til sín taka í menningarstarfi á Íslandi.

Alexandra Chernyshova bjó í nokkur ár í Skagafirði, stofnaði söngskóla, Óperu Skagafjarðar og stýrði stúlknakór, en kennir nú í Vogunum. Skagfirðingar komu henni skemmtilega á óvart  „Ég hafði heyrt að þau væru góð að syngja, en þegar ég kynntist þeim! Vá! Ertu ekki að grínast?“ Alexandra var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1 – og endaði viðtalið með söng.  

Meira um kynni Alexöndru Chernyshova af Skagfirðingum:  „Þau sungu eins og atvinnusöngvarar, vantaði bara aðeins að leiðbeina þeim. Þetta var geggjað – og þau tóku rosalega vel á móti mér. Það var yndislegt. Þarna var áhugi og gleði – einmitt það sem söngurinn gefur.“

Já, eftir að Alexandra fluttist til Íslands hefur hún komið miklu í verk - bætt við sig prófgráðu, sungið og kennt. Nú er hún tónmenntakennari við Stóru-Vogaskóla, gift Jóni Hilmarssyni og saman eiga þau börn. Lífið er söngur og gleði, segir hún.

En ef einhver dáist að því hversu dugleg hún er, þá svarar Alexandra: „Ég er ekki dugleg, bara geri það sem er í hjartanu - það sem gleður mann. Ef það er gleði í því sem þú gerir, getur þú farið alla leið. Þá getur enginn stoppað þig."

Alexandra Chernyshova, sópransöngkona, kemur fram í Hannesarholti í hádeginu á sunnudag með Rúnari Þór Guðmundssyni, tenór, og Helga Hannessyni, píanóleikara. Þau kalla sig Trío Grande og ætla að flytja falleg, rómantísk, þekkt klassísk lög – sannkalað konfekt.  

Alexandra lauk viðtalinu á Morgunvaktinni með söng beint frá hjartanu: Dein ist mein ganzes herz, eftir Franz Lehár. 

Mynd með færslu
 Mynd: