Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gerðu loftárásir vegna morðs á diplómata

19.07.2019 - 04:26
Deilur og stríð · Erlent · Asía · Írak · Kúrdar · Tyrkland
A missile-loaded Turkish Air Force warplane takes off from the Incirlik Air Base, in the outskirts Adana, south-eastern Turkey, Tuesday, July 28, 2015. After months of reluctance, Turkish warplanes last week started striking militant targets in Syria and
 Mynd: AP
Tyrkir gerðu í gær loftárásir gegn skotmörkum í Kúrdistan í Írak eftir að aðstoðarræðismaður þeirra var skotinn til bana í borginni Erbil í Kúrdistan á miðvikudag. Þeir segja Verkamannaflokk Kúrdistans bera ábyrgð á morðinu.

Samkvæmt lögreglu í borginni féllu tveir til viðbótar í skotárásinni. Enginn hefur lýst ábyrgð á verknaðinum en margt þykir benda til þess að meðlimir Verkamannaflokksins, sem Tyrkir segja hryðjuverkasamtök, beri ábyrgð á honum. Talsmenn flokksins vísa á bug að meðlimir hans hafi átt nokkurn hlut að máli.

Í yfirlýsingu frá Hulusi Akar, varnarmálaráðherra Tyrklands, sagði að loftárásirnar hefðu verið gerðar í Qandil, norður af Erbil. Skotmörkin voru að hans sögn skýli og hellar þar sem meðlimir Verkamannaflokksins höfðust við.

Hann sagði enn fremur að ekkert yrði gefið eftir í baráttunni við hryðjuverkahópa sem héldi áfram uns sá síðasti úr þeirra röðum væri fallinn.