Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Gerðu heilaskurðaðgerð á röngum sjúklingi

03.03.2018 - 06:06
Erlent · Afríka · Kenía
epa06468005 A general view of Kenyatta National Hospital (KNH), Kenya's biggest referral hospital where a group of women activists from different organizations marched to during a protest against the hospital after allegations of sexual harassment on
 Mynd: EPA
Heilaskurðlæknir í Kenía var vikið frá störfum eftir hræðileg mistök á stærsta sjúkrahúsi landsins. Þar gerði hann heilaskurðaðgerð á röngum sjúklingi.  Kenyatta sjúkrahúsið hefur verið í sviðsljósinu undanfarið vegna ýmissa hneykslismála. Starfsfólk hefur verið sakað um að beita sjúklinga kynferðislegu ofbeldi og þá var barni rænt af sjúkrahúsinu. 

Guardian hefur eftir fjölmiðlum í Kenía að tveir menn hafi komið á sjúkrahúsið á svipuðum tíma um síðustu helgi. Annar þeirra þurfti á aðgerð að halda vegna blóðtappa í heila, en hinn þurfti aðeins lyf vegna verkja í höfði.

Nokkrum klukkustundum eftir að aðgerðin hófst tóku læknar eftir því að enginn blóðtappi var í heila sjúklingsins, og þeir væru því að gera aðgerð á röngum manni. Auk skurðlæknisins var tveimur hjúkrunarfræðingum og svæfingarlækni vikið tímabundið frá störfum á meðan málið er rannsakað.

Stjórn sjúkrahússins sendi frá sér yfirlýsingu þar sem atvikið var harmað og allt hafi verið gert til þess að tryggja öryggi og vellíðan sjúklingsins sem fór óvart undir hnífinn. Hann er sagður vera á góðum batavegi.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV