Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Gerðu fyrst ráð fyrir hækkun í 11 prósent

26.11.2014 - 13:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjármálaráðuneytið ætlaði sér upphaflega að hækka neðra þrep virðisaukaskatts upp í 11% prósent en ekki í 12%. Þegar fjárlagafrumvarpið var kynnt í haust var sagt að matarskatturinn svokallaði myndi hækka í 12%. Í öllum prentuðum gögnum stóð hins vegar að hann yrði hækkaður í 11%.

Fjárlagafrumvarp næsta árs var kynnt þann níunda september síðastliðinn. Þar vakti strax mesta athygli að boðuð var hækkun neðra þreps virðisaukaskattsins úr sjö prósentum í 12 prósent. Þetta er hinn svokallaði matarskattur. Þessi skattur vakti þegar miklar umræður og sætti gagnrýni. Fréttastofa RÚV vakti strax athygli á því að í öllum prentuðum gögnum með fjárlagafrumvarpinu stæði hins vegar að matarskatturinn myndi aðeins hækka í 11 prósent en ekki 12 prósent.

Hækkunin ætti þó ekki að koma til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2016, en ekki um næstu áramót. Þetta kemur fram, bæði í prentaðri útgáfu fjárlagafrumvarpsins og í fylgiritinu Stefna og horfur.

Þegar fréttastofa leitaði skýringa í fjármálaráðuneytinu í haust á þessu misræmi voru þær skýringar gefnar að tölurnar væru úreltar því að forsendur hefðu breyst frá því að talnavinnu við frumvarpið lauk í sumar.

Eftir mikla gagnrýni á hækkun matarskatts í 12 prósent á síðustu vikum og jafnvel efasemdir um að nokkur hluti þingmanna Framsóknarflokksins myndi styðja þær breytingar, hefur fjármálaráðherra nú tilkynnt að matarskatturinn skuli hækka í 11 prósent í stað 12 prósenta.

Hins vegar bendir þessi handvömm í útgáfu fjárlagafrumvarpsins í haust til þess að í ráðuneytinu hafi þegar í sumar heilmikil vinna farið í að skoða þá leið. Hún virðist engan veginn vera ný af nálinni.