Gera verði refsivert að „ræna fólk launum“

03.10.2018 - 10:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, segir að bæði verði að gera það refsivert samkvæmt lögum að ræna fólk launum og að eigendur fyrirtækja geti haldið uppteknum hætti á nýrri kennitölu. Í Kveik í gær kom meðal annars fram að dæmi eru um að fyrirtæki í samkeppnisrekstri séu rekin í fjölda ára án launaðra starfsmanna og treysti þess í stað á vinnu sjálfboðaliða. Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir hryggilegt hvernig sumir atvinnurekendur komi fram.

„Ég er mjög hryggur að sjá það sem við sáum í þættinum í gærkvöld] hvernig sumir atvinnurekendur koma fram við starfsfólk. Það er auðvitað mjög leitt að sjá að þetta skuli gerast hér hjá okkur,“  segir Sigurður. Hann telur að meginþorri atvinnurekenda standi sig vel og komi vel fram við sitt starfsfólk.  „Þetta er verkefni okkar að reyna að koma í veg fyrir þetta eins og hægt er.“

Full ástæða að kanna hvað hægt sé að gera 

Fyrir nokkrum árum hafi verið samstarf verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda, skattayfirvalda og annarra til að sporna gegn svona framkomu. „Ég tel fulla ástæðu til að skoða hvað við getum gert til að koma í veg fyrir að svona lagað eigi sér stað,“ segir Sigurður.   

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, segir að viðurlög skorti við kjarasamningsbrotum vinnuveitenda. 

„Við þurfum að bæta reglu- og lagarammann enn frekar. Við höfum verið að ná ákveðnum árangri varðandi keðjuábyrgðina og hefur ekki reynt á ennþá. Við þurfum hins vegar að fá í löggjöf að það sé einfaldlega refsivert að ræna fólki launum. Við þurfum síðan að fá löggjöf sem kemur í veg fyrir að þessi fyrirtæki geti skipt um kennitölu þegar illa árar og byrjað síðan upp á nýtt í þessari sömu brotastarfsemi,“ segir Halldór.    

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Morgunútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi