Gera upp gamla báta við höfnina

07.05.2012 - 16:44
Mynd með færslu
 Mynd:
Unnið er að endurbótum á þremur gömlum trébátum við Gömlu höfnina í Reykjavík auk þess sem til stendur að gera gamla lóðsbátinn Haka kláran á næstu mánuðum. Þá standa vonir til að hið sögufræga skip Aðalbjörg ER-5 verði gert upp.

Tveimur skipanna hefur verið komið upp við Grandabryggjuna næst Norðurbugt og þeim þriðja á slippasvæðinu við Ægisgarð.

Gísli Gíslason hafnarstjóri segir ánægjulegt að vaxandi áhugi sé á því að gera upp gamla báta og varðveita. Hann vísar til þess að í fyrra var haldið málþing um endurnýjun og endursmíði gamalla báta. Þar var farið yfir stöðuna í þessum málum. Trébátum, sem áður voru algeng sjón, hefur farið fækkandi og þeir sem hafa viljað gera þá upp búa við annað umhverfi en þeir sem gera upp gömul hús og geta sótt um styrki til slíks.

Einn þeirra báta sem hugmyndir hafa verið um að gera upp er Aðalbjörg RE sem byggð var 1934-1935. Smíði hennar var að hluta hugsuð sem atvinnuráðstöfun af hálfu bæjarins í kreppunni miklu. Skipið reyndist síðan mikið happafley, aflaði vel og í október 1944 björguðu skipverjar 198 manns af kanadíska tundurspillinum Skeena við Viðey. Aðalbjörg RE-5 var gerð út til ársins 1986 og þá gefin Árbæjarsafni þar sem báturinn var tekinn upp og hafður til sýnis. Þar hefur báturinn hins vegar legið undir skemmdum og er orðið brýnt að hann verði gerður upp.

„Þetta er eins og Færeyingarnir segja: Skip eiga að vera á sjó," segir Gísli hafnarstjóri, sem sjálfur þekkir til vinnubragða Færeyinga. Þeir hafa meðal annars gert upp kútterinn Westward Ho sem Gísli tók þátt í að sigla til Íslands fyrir tveimur árum. Það skip gerðu Færeyingar upp og gerðu sjófært á ný. Gísli segir að lærdómur Íslendinga sé sá sami og Færeyinga. Skip skemmist á 20 árum þegar þau eru tekin á land. Þau þoli ekki veðrunina. Örlög Aðalbjargar eru til marks um það en einnig sést þess dæmi í þeim miklu skemmdum sem hafa orðið á Kútter Haraldri á Akranesi. Þar er svo komið að heimamenn segja að annað hvort verði að bjarga skipinu nú eða taka ákvörðun um að farga því.

Aðalbjörg RE-5 er illa farin eftir að hafa staðið á landi í aldarfjórðung. Gera þarf hana upp fljótlega ef hún á ekki að eyðileggjast, að mati þeirra sem hafa kannað ástand hennar.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi