Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Gera athugasemdir við ummæli talsmanns ESB

13.03.2015 - 16:33
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, segir að talsmaður stækkunarstjóra ESB á blaðamannafundi í morgun, sé ekki með það á hreinu hvað standi í bréfinu sem hann afhenti í Slóvakíu í gær. Hann setji fram fullyrðingar um atriði sem hvergi komi fram í bréfinu.

Talsmaður stækkunarstjóra Evrópusambandsins segir að sambandið hafi tekið til greina bréf ríkisstjórnar Íslands, um að landið sé ekki lengur í hópi umsóknarríkja að sambandinu. Formlega eigi þó eftir að draga umsóknina til baka.

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, segir í samtali við mbl.is að „þessi ágæti talsmaður er engan veginn með það á hreinu hvað stendur í bréfinu enda setur hún þarna fram fullyrðingar um atriði sem hvergi koma þar fram,“ segir Gunnar Bragi í samtali við vefmiðilinn.

Hann upplýsir einnig að haft hafi verið samband við talsmann stækkunarstjórans og honum bent á að hann hafi ekki farið rétt með á blaðamannafundinum í morgun. Gunnar upplýsir einnig í viðtali við mbl.is að haft hafi verið samband við utanríkisráðherra Lettlands en Lettar fara með formennsku í ESB. Það sem fram komi í bréfinu eigi ekki að fara á milli mála - óskað væri eftir því að Ísland yrði ekki skilgreint sem umsóknarríki enda ljóst að umsóknin hefði runnið sitt skeið.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV