Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gera athugasemdir við drög að umferðarlögum

17.08.2018 - 08:16
Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson / Nýir strætisvagnar
Strætó hefur sent inn umsögn við drög að nýjum umferðarlögum þar sem þau kveða á um að innanbæjarstrætó yrði ekki heimilt að aka á vegum með níutíu kílómetra hámarkshraða. Það myndi þýða að strætó gæti ekki boðið upp á ferðir með innanbæjarvagni á Kjalarnes í framtíðinni.

Vagnarnir sem nú eru notaðir í ferðir Strætó á Kjalarnes eru landsbyggðarstrætisvagnar með öryggisbeltum. Strætó sendi umsögn við drög laganna inn til að minna á að í framtíðinni gæti byggð orðið mun þéttari á Kjalarnesi og þá yrði hentugt að geta boðið upp á tíðari ferðir með innanbæjarstrætó, að sögn Jóhannesar Svavars Rúnarssonar, framkvæmdastjóra Strætó.

„Reyndar er þetta ekki stórt hverfi enn þá en það á örugglega eftir að stækka. Þessir vagnar, innanbæjarvagnar, eru ekki gerðir til að aka á vegum sem er með 90 kílómetra hraða. Eins og drögin að lögunum eru þá væri ekki leyfilegt að aka með innanbæjarvagn upp á Kjalarnes,“ segir Jóhannes. Rætt var við hann í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. 

Jóhannes nefndi að hægt yrði að lækka hámarkshraða á Vesturlandslandsvegi að Kjalarnesi en það myndi vissulega hafa áhrif á aðra sem þar aka um. Strætó ekur landsbyggðavögnum á Kjalarnes í dag og í þeim eru öryggisbelti. Jóhannes segir að hvergi í heiminum séu öryggisbelti í innanbæjarvögnum. Það sé svo að farþegar geti komið sér út úr vagninum á stuttum tíma. Alger kúvending yrði ef öryggisbelti yrðu sett í innanbæjarvagna. Þrátt fyrir að ekki séu öryggisbelti í innanbæjarstrætisvögnum sýni rannsóknir að tíu sinnum hættuminna sé að ferðast með almenningssamgöngum en einkabíl, að sögn Jóhannesar.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir