Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Gera athugasemd við brúarframkvæmd

23.09.2015 - 15:13
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Blönduósi
Minjastofnun hefur gert athugasemdir við að framkvæmdir við nýja brú yfir Vatnsdalsá væru hafnar áður en stofnunin hafði skilað inn umsögn um framkvæmdina. Bráðabirgðabrú yfir ána hefur verið tekin í gagnið.

Um miðjan ágúst hrundi brúin yfir Vatnsdalsá þegar að hún lét undan þunga flutningabíls sem ók yfir hana. Í kjölfarið ályktaði sveitarstjórn Húnavatnshrepps að mikilvægt væri að brúa ána sem allra fyrst. Nú hefur bráðabirgðabrú yfir Vatnsdalsá verið tekin í gagnið.

Héraðsfréttavefurinn Húnahornið greinir frá því að Minjastofnun hafi gert athugasemdir við að bráðabirgðabrúin hefði verið tekin í gagnið áður en Minjastofnun gæfi umsögn um framkvæmdina.

Þór Hjaltalín minjavörður hjá Minjastofnun sagði í samtali við fréttastofu að byggingarfulltrúi Húnavatnshrepps hefði óskað eftir umsögn frá stofnuninni um framkvæmdina, eins og lög gera ráð fyrir. Hinsvegar hafi framkvæmdir hafist áður en Minjastofnun var búin að skila inn umbeðinni umsögn. Hann segir að gamla brúin hafi verið skoðuð af starfsmönnum stofunarinna.

„Það er búið að veita umsögn um gömlu brúna og hún var metin ónýt og að ekki væri hægt að gera við hana. Hinsvegar er það þannig að reglan er að framvkæmdir eins og þessi, þar sem um jarðrask er að ræða, komi til umsagnar Minjastofnunnar. “

Þór segir það ekkert sérstaklega miklar líkur á því að þarna sé um að ræða svæði þar sem fornminjar leynist í jörðu en venjan er að beðið sé eftir umsögn stofnunarinnar áður en framkvæmdir hefjast. Hann segist telja að einfaldlega hafi verið um handvömm að ræða.

Freyja Dögg Frímannsdóttir
Fréttastofa RÚV