Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gengur vel að undirbúa komu flóttafólks

16.08.2019 - 14:49
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Búist er við 25 kvótaflóttamönnum til Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness á næstu mánuðum. Ragna Dögg Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri vegna móttöku flóttafólks hjá Garðabæ, segir að undirbúningurinn gangi vel og sé nú kominn á fullan skrið.

Garðbær og Mosfellsbær taka á móti tíu manns hvor og Seltjarnarnes fimm, meðal annars frá Úganda, Simbabve, Rúanda og Kongó. Þegar hefur verið tekið á móti einum flóttamanni á Seltjarnarnesi. 

Reynslunni ríkari eftir móttöku flóttafólks í fyrra

„Við, starfsfólk Mosfellsbæjar, erum spennt fyrir komu flóttafólksins og þetta leggst vel í okkur“, segir Unnur V. Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar.

Hún segir að þau séu reynslunni ríkari eftir að hafa tekið á móti tíu kvótaflóttamönnum frá Úganda í fyrra. Það hafi gengið vel og samfélagið verið jákvætt og styðjandi í því verkefni. „Ég finn ekki annað en að fólk í bænum sé fullt eftirvæntingar og jákvætt gagnvart komu flóttafólksins.“

Hún segir að það hafi tekið smá tíma að útvega fólkinu húsnæði, það sé mesta áhyggjuefnið. Bærinn sé því þegar farinn að líta í kringum sig að húsnæði. Vonandi gangi það vel.

Taka á móti kvótaflóttamönnum í fyrsta sinn í Garðabæ

Ragna segir að þetta sé í fyrsta sinn sem tekið er á móti kvótaflóttamönnum í Garðabæ. Það þurfi að huga að mörgu við komu fólksins. Svo sem þurfi að tryggja þeim læknisþjónustu og hlúa að andlegri og líkamlegri heilsu þeirra. Þá þurfi að útvega húsnæði auk þess sem þeim verði veittur fjárhags- og framfærslustuðningur meðan þau ná fótfestu í samfélaginu.

Hún segir að atvinnumöguleikar fólksins séu góðir. Reynslan sýni að flóttafólk hér á landi fari tiltölulega fljótt út á vinnumarkað eftir komuna til landsins. Þá sé þeim séð fyrir tungumálakennslu. Unnið sé í nánu samstarfi við fjölda aðila svo sem Rauða krossinn. 

Geti verið mikil viðbrigði að koma til landsins

Ragna segir að það geti verið mikil viðbrigði fyrir flóttafólk að koma til landsins. Til dæmis vegna tungumálaörðugleika og öðruvísi veðurbrigða en þau eru vön, svo sem mikils myrkurs. Þá sé menningin talsvert ólík því sem þau þekki. Til dæmis séum við meira einangruð hér á landi í raun og meiri umgengni við fólk, fjölskyldur og vini þaðan sem þau koma. 

Ragna segir að viðhorf bæjarfélagsins sé gott í garð komu fólksins. Fólk sé forvitið og jákvætt. Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar segir að bæjarstjórnin muni vanda sig við að taka á móti fólkinu. „Ég get ekki fundið annað en að bæjarbúar séu almennt jákvæðir gagnvart því að taka á móti flóttafólkinu,“ segir hann.