Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gengur vel að undirbúa komu flóttafólks

10.05.2019 - 12:44
Drónamyndir af Blönduósi.
 Mynd: RÚV - Jóhannes Jónsson
Undirbúningur stendur nú sem hæst á Blönduósi og Hvammstanga fyrir móttöku nýrra íbúa. Þangað flytja hátt í 50 sýrlenskir flóttamenn á næstu dögum.

Fyrri hópurinn kemur til Hvammstanga á þriðjudagskvöld og sá seinni á Blönduós á miðvikudagskvöld, að frátaldri einni fjölskyldu sem kemur síðar. Alls eru þetta 44 sýrlenskir flóttamenn, níu fjölskyldur og á þriðja tug barna, sem hafa dvalið í Líbanon undanfarin ár. 

Móttakan krefst undirbúnings, einkum á vegum sveitarfélaganna í samvinnu við Rauða krossinn, stuðningsfjölskyldur og annað heimafólk. Þá er búið að ráða verkefnastjóra á báða staði, túlka, stuðningsfulltrúa og menningarmiðlara.

Þórunn Ólafsdóttir, verkefnastjóri á Blönduósi, segir í mörg horn að líta áður en fólkið kemur. „Stærsti þátturinn núna er að sjá til þess að húsnæðið sé klárt og að fjölskyldurnar komi bara inn á sín heimili og þau séu tilbúin fyrir þau. Það eru hörkuduglegir sjálfboðaliðar frá Rauða krossinum aðallega sem eru að sinna þessu, alveg ótrúlegur hópur,“ segir Þórunn. 

Mynd með færslu
 Mynd: Af vef Blönduósbæjar - RÚV
Nýráðnir verkefnastjórar vegna komu flóttafólks til Blönduóss. Þórunn Ólafsdóttir og Kinan Kadoni.

Í þessum töluðum orðum er verið að setja saman húsgögn og innrétta íbúðir í kapphlaupi við tímann. Þá þarf að halda fundi og lykilstofnanir samfélagsins að stilla saman strengi sína. Þórunn segir að stór hópur sjálfboðaliða hafi boðið sig fram til að aðstoða nýju íbúana. „Þetta hefur gengið bara alveg ótrúlega vel. Svona gerist auðvitað ekki af sjálfu sér og það þarf heilt þorp í þetta verkefni. Nú get ég auðvitað ekki talað fyrir hönd allra heimamanna, en það sem ég hef heyrt og séð er ekkert annað en hugur í fólki og fólk tilbúið að taka vel á móti nýjum íbúum,“ segir Þórunn. 

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV