Brúðurin, Edda Ósk Smáradóttir, sagðist í samtali við Morgunútvarpið á Rás tvö í morgun hafa skipulagt brúðkaupið löngu áður en það lá fyrir að Ísland mætti Argentínu þennan dag. „Við auðvitað ákváðum þetta ári áður og þá var Ísland ekki komið á HM,“ segir Edda Ósk. Þau hafi fengið smá áfall þegar Ísland komst á HM og óttast að svona gæti farið. Þegar í ljós kom að fyrsti leikur Íslands væri sama dag og fyrirhugað brúðkaup hafi þau íhugað að færa athöfnina. „Við hugsuðum það og athuguðum það en þá var kirkjan bókuð aftur seinni partinn, þannig að við hefðum ekki getað verið í sömu kirkju og við hefðum líka misst þá tónlistina í kirkjunni,“ segir Edda Ósk.
Verðandi brúðhjón hafa þó ekki fengið margar afboðanir brúðkaupsgesta, og Edda Ósk segist vel skilja ef einhverjir gestir fylgjast með athöfninni með útvarpslýsingu á leiknum í eyrunum. „En ég fæ nú að sjá mest af leiknum, af því ég þarf að mæta síðust.“