Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Gengu út af fundi

14.10.2011 - 13:28
Fulltrúar sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum gengu í gær út af ráðstefnu um fjármál sveitarfélaganna í gær. Svar Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, við fyrirspurn um atvinnumál í Þingeyjarsýslu urðu þess valdandi að fulltrúarnir gengu úr sal. Steingrímur sagði í umræðum um atvinnumál á svæðinu að bygging 360 þúsund tonna álvers væri óraunhæf, til þess þyrfti að virkja Skjálfandafljót.

Gunnlaugur Stefánsson, forseti bæjarstjórnar Norðurþings er einn þeirra sem gekk af fundi. Hann sagðist í samtali við fréttastofu ósáttur við að ráðherra tali um 360 þúsund tonna álver. Frá upphafi hafi einungis verið rætt um 250 þúsund tonna álver og meðal annars viljayfirlýsing þess efnis verið samþykkt á sínum tíma. Þá sé ómaklegt að leggja Skjálfandafljót undir í þessu samhengi.