Gengu hvor í sína áttina að slagsmálum loknum

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um slagsmál fyrir utan vínveitingastað í Kópavogi snemma morguns. Þegar lögregla kom á vettvang voru slagsmálin yfirstaðin. Áverkar mannanna voru minni háttar og gengu þeir hvor í sína áttina að loknum afskiptum lögreglu. Engar kærur voru lagðar fram vegna málsins.

Tilkynnt var um árekstur tveggja bíla, aftanákeyrslu, í Garðabæ eftir hádegi í dag. Ungt barn var í öðrum bílnum. Farið var með það til skoðunar á slysadeild en engin meiðsli voru sjáanleg á barninu.

Tilkynnt um eignaspjöll og innbrot

Tilkynnt var um eignaspjöll og rúðubrot í húsnæði í Hafnarfirði. Í tilkynningu frá lögreglu segir að verið sé að kanna upptökur úr eftirlitsmyndavélum sem gætu varpað ljósi á málið. 

Þá barst lögreglu tilkynning um innbrot og þjófnað í tvær íbúðir í Reykjavík rétt eftir hádegi. Ekki liggur fyrir hversu miklu var stolið. Málin eru nú til rannsóknar hjá lögreglu. 

Innbrotum fjölgað á milli ára

852 hegningarlagabrot voru skráð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í október og fækkaði þeim frá mánuðinum á undan, segir í mánaðarskýrslu lögreglunnar.

Þar kemur fram að 396 tilkynningar um þjófnað hafi borist lögreglunni í október og 3.361 á árinu. Þeim hafi fækkað um eitt prósent miðað við meðalfjölda á sama tímabili síðustu þrjú ár á undan.

Þá var tilkynnt um 132 innbrot í mánuðinum. Það sem af er ári hafa 845 tilkynningar um innbrot borist lögreglu og hefur þeim fjölgað um ellefu prósent það sem af er ári miðað við sama tímabil síðastliðin þrjú ár á undan.

 

Innbrotum í fyrirtæki og stofnanir hafa aukist

Innbrot í fyrirtæki eða stofnanir hafa aukist og voru 54 í októbermánuði, miðað við 26-27 í ágúst og september, 14 í júlí og 18 í júní. Á síðustu tólf mánuðum voru næst flest innbrot í fyrirtæki og stofnanir í nóvember í fyrra, þá 31. 

Af þeim 132 tilkynningum um innbrot sem bárust í október voru 39 á heimili eða einkalóð og 36 í ökutæki og fækkaði þeim um  rúm 25 prósent á milli mánaða. 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi