Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Gengið framar vonum að fá útigangsmenn heim

19.06.2017 - 15:15
Mynd: rúv / rúv
Sex pólskir útigangsmenn, sem hafa verið fastagestir í Gistiskýlinu við Lindargötu, sumir árum saman, hafa á þessu ári valið að halda heim til Póllands í áfengismeðferð. Reykjavíkurborg fól pólsku félagasamtökunum Barka það verkefni að hjálpa austurevrópskum útigangsmönnum í borginni að koma lífi sínu á réttan kjöl. Verkefnið hófst um áramótin og átti að vera til hálfs árs en hefur nú verið framlengt til ársloka. Árangurinn kom pólskum leiðtoga verkefnisins verulega á óvart. 

Barka-samtökin starfa í borgum í Bretlandi, Hollandi og víðar. Tveir starfsmenn hafa verið hér frá áramótum. Piotr Smigielski leiðir verkefnið. Hann var sjálfur á götunni í Hollandi í þrjú ár en tókst að koma undir sig fótunum á ný með hjálp samtakanna. Magdalena Kowalska sálfræðingur aðstoðar hann. 

Hitta mennina daglega

Smigielski segir að mennirnir eigi flestir við áfengisvanda að stríða en sumir séu einnig háðir öðrum vímuefnum. Þau Kowalska hafa kynnt sér aðstæður mannanna vel og hitta þá nær daglega. Þau fylgja þeim á Kaffistofu Samhjálpar eða til Teresusystra, nálgast þá sem jafningja, reyna að vinna traust þeirra og fá þá til þess að segja sér sögu sína. „Við neyðum þá ekki til þess að fara til Póllands," segir Smigielski, „þeir fara ekki nema þá langi sjálfa til þess. Við bíðum bara þangað til þeir eru tilbúnir til þess að þiggja hjálp og rífa sig upp úr þessu fari."

Sér mikinn mun á hópnum

Í hópnum eru um 30 manns og sumir hafa verið á götunni árum saman. Þeir fá að vera í Gistiskýlinu frá klukkan fjögur síðdegis og fram til klukkan tíu morguninn eftir. Kowalska segir að þeir séu yfirleitt á Kaffistofu Samhjálpar frá tíu til tvö, þar geti þeir fengið sér að borða og spjallað. Þeir sitja svo einhvers staðar eða rölta um þangað til þeir geta snúið aftur í Gistiskýlið. 

Bjarni Geir Alfreðsson, verkefnastjóri Kaffistofu Samhjálpar, segist sjá mikinn mun á pólskum skjólstæðingum Kaffistofunnar. Þeir drekki ekki jafn illa og það sé minna vesen á þeim eftir að Barka fór að sinna þeim. 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Magdalena Kowalska og Piotr Smigielski.

Fá úrræði í boði

„Við erum með sambærilegt teymi fyrir íslenska utangarðsmenn, fjölmennara teymi af því það eru fleiri í þeim hópi, en við höfum alltaf verið í vandræðum með þennan hóp sökum tungumálaerfiðleika. Vinna Barka er að veita þeim stuðning og ráðgjöf og reyna að hvetja þá til að fara heim í meðferð, breyta þessum lífstíl sem þeir eru fastir í hér. Samtökin hafa líka hjálpað þeim sem hafa ekki farið heim, bara með því að veita ráðgjöf og stuðning," segir Jóna Guðný Eyjólfsdóttir, deildarstjóri hjá Reykjavíkurborg. 

Hingað til hafa engin úrræði verið fyrir þennan hóp hér. Þeim býðst tíu daga afvötnun á Vogi en þeir hafa lítið gagn af framhaldsmeðferð þar sem hún er ekki í boði á móðurmáli þeirra.

Einn valið að snúa aftur til Íslands

Eftir meðferðina í Póllandi geta mennirnir valið hvort þeir snúa aftur til Íslands, fara heim til fjölskyldunnar eða flytja í búsetukjarna á vegum Barka þar sem þeir fá aðstoð við að aðlagast samfélaginu á ný. Einn þeirra sex sem hélt til Póllands ákvað að snúa aftur til Íslands að meðferð lokinni. Hann er kominn með vinnu og húsnæði. Flestir hinna hafa valið að flytja í búsetukjarna. Þeir búa þá nokkrir saman, hjálpast að við að halda heimili og geta sótt vinnustofur eða farið í starfsþjálfun hjá samtökunum. Smigielski segir að sumir eigi engan að í Póllandi, aðrir séu ekki tilbúnir að setja sig í samband við fjölskylduna. Þess vegna velji flestir að flytja í húsnæði á vegum Barka. 

Árangur þrátt fyrir velferðarkerfið

Þau Smigielski og Kowalska höfðu áhyggjur af því í upphafi að það yrði erfitt að fá menn til þess að taka sér tak hér vegna þess að þeir fá bætur og geta fjármagnað neyslu sína. Smigielski segir að velferðarkerfið hér sé gjöfult en það sé ekki mönnunum í hag. Í Hollandi geti menn einungis fengið fjárhagsstuðning í takmarkaðan tíma og þurfi að uppfylla ýmis skilyrði en hér sé engum botni náð. Smigielski segir það hafa komið sér verulega á óvart að svo margir skyldu þrátt fyrir þetta velja að fara heim. 

Skömmin hélt honum í Hollandi

Piotr Smigielski segir að reynsla hans sé að mörgu leyti lík reynslu mannanna sem eru á götunni hér. Þó það sé misjafnt hvers vegna menn leiðist út í ofdrykkju. Smigielski er alkóhólisti. Hann fór til Hollands til að vinna árið 2007 og árið 2009 varð drykkjan til þess að hann missti vinnuna og lenti á götunni. Hann skammaðist sín vegna þess hvernig komið var fyrir honum og valdi því frekar að vera allslaus á götunni í Hollandi en að snúa aftur heim til Póllands.

Það tók hann ár að gera upp hug sinn

Hann þekkir af eigin reynslu að það getur tekið tíma að gera upp hug sinn. Það leið ár frá því honum bauðst hjálp Barka þar til hann þáði hana. En hvers vegna velja mennirnir að fara? Smigielski segir það mjög einstaklingsbundið, hann geti ekki talað fyrir þeirra hönd. Fyrst og fremst sé það þó sú vonlausa staða sem þeir séu í.

Áhættuhópur sem gæti lent á götunni

Útigangsmennirnir sem Smigielski og Kowalska eiga í samskiptum við á hverjum degi eru um 30 talsins en það eru fleiri sem eiga það á hættu að lenda á götunni. Þetta er hópur fólks sem á við áfengisvanda að stríða en er enn með húsnæði eða í vinnu. Sumir gera sér grein fyrir því að þeir eigi við vandamál að stríða, aðrir ekki. Þetta gætu verið framtíðarskjólstæðingar okkar, segir Smigielski. Samtökin hafa sett sig í samband við þetta fólk og sagt þeim að þau geti liðsinnt því. 

Hagkvæmt verkefni

Jóna segir verkefnið hagkvæmt fyrir borgina. 

„Þeir eru að fá mikla þjónustu hjá okkur, þeir eru að fá þjónustu í gistiskýlinu. Þeir eru á örorkubótum eða framfærslu sveitarfélagsins þannig að þetta er mjög fljótt að borga sig."

Hugsanlegt er að samningurinn verði framlengdur aftur um næstu áramót, borgin metur það þegar þar að kemur. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV