Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Gengið frá sölu Latabæjar

08.09.2011 - 18:13
Latibær verður áfram rekinn á sama hátt og áður þó að búið sé að selja fyrirtækið til Turner. Þetta segir Magnús Scheving upphafsmaður Latabæjar. Samningur um sölu Latabæjar til Turner Broadcasting System var undirritaður nú síðdegis. Kaupverðið er tveir og hálfur milljarður króna.

Magnús Scheving, upphafsmaður Latabæjar, er afar ánægður með kaupin og segir að með þeim sé tryggt að Latibær haldi áfram á þeirri braut sem hann hafi sjálfur markað, þ.e. að hvetja krakka til heilsusamlegs lífernis.

Hann er sérstaklega ánægður með að Íslendingar fái vinnu við framleiðslu þáttanna.

„Ég verð við stjórnvölinn næstu 3 til 4 árin þannig að við höldum sömu stefnu og framleiðum fleiri þætti.“

Magnús segir kaupendurna á svipaðri línu og hans teymi, þeir hafi fyrst og fremst viljað kaupa Latabæ fyrir það hvað Íslendingarnir hafa gert.

„Við erum að fara að taka upp á Íslandi, þetta er 2 milljarða króna fjárfesting og við getum útvegað yfir 1-200 manns vinnu. Það er ekkert smá að koma með það inn í hagkerfið, ég myndi segja að á þessum tímum væri það bara frábært.“

Fjárfestar ekki endilega með gróðamarkmið

Magnús segist þakklátur þeim sem hafi tekið þátt í verkefninu með sér. „Það voru margir sem trúðu á þetta og margir sem fengu ekki allt sitt til baka en ég hef hitt fjárfesta sem hafa hreinlega sagt: Við gerðum þetta ekki endilega út af því, við vildum að börn lifðu heilbrigðu lífi og þetta var meira en bara fjárfesting.“

Þættirnir um Latabæ eru framleiddir í myndveri fyrirtækisins í Garðabæ en þeir hafa verið sýndir í yfir hundrað löndum. Byrjað verður fljótlega að taka upp nýja þáttaröð sem verður tilbúin seinni hluta næsta árs.

Forstjóri Turner segir boðskap Latabæjar eiga erindi við áhorfendur stöðvanna. „Og við munum nýta alla möguleika sem við höfum, sem hnattvætt fjölmiðlafyrirtæki, til að byggja þetta upp. Við munum sýna Latabæ hvar sem við getum, á Cartoonito stöðinni og jafnvel sumsstaðar á Cartoon Network stöðvunum.“