Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Geir tapar málinu fyrir Mannréttindadómstólnum

Islands statsminister Geir H Haarde. Nordisk-baltiskt statsministermöte. Nordiska Ministerrådets session i Köpenhamn. 2006-10-30. Foto: Magnus Fröderberg/norden.org
 Mynd: Magnus Fröderberg - Norden.org
Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) hefur komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hafi ekki brotið gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, þegar hann var dreginn fyrir landsdóm og sakfelldur fyrir vanrækslu í starfi sínu í aðdraganda efnahagshrunsins 2008. Dómurinn var birtur á vef dómstólsins rétt í þessu.

Kæra Geirs byggði annars vegar á því að saksókn Alþingis á hendur honum hefði verið pólitísk geðþóttaákvörðun, að ágallar hefðu verið á undirbúningi málshöfðunarinnar og að Landsdómur hefði ekki verið sjálfstæður og óvilhallur. Sjö dómarar MDE hafna þessum röksemdum samhljóða.

Í niðurstöðu dómsins segir að ekkert í aðdraganda málshöfðunarinnar, hvort sem er hjá þingnefndinni sem lagði hana til, hjá þinginu sjálfu eða hjá saksóknara Alþingis, hafi verið þess eðlis að það gerði málsmeðferðina í kjölfarið óréttláta gagnvart Geir. Þá segja dómararnir að ekkert sýni fram á að landsdómur hafi verið ósjálfstæður eða óvilhallur, né að réttarhöldin sjálf eða dómurinn hafi farið í bága við lög.

Geir byggði einnig á því að stjórnarskrárákvæðið sem hann var fundinn sekur um að hafa brotið gegn væri óskýrt og að hann hefði ekki átt að geta séð fyrir að gjörðir hans brytu í bága við það.

Dómurinn hafnar þessu með sex atkvæðum gegn einu sératkvæði. Meirihlutinn telur að brotið sem Geir var sakfelldur fyrir hafi verið skýrt skilgreint í stjórnarskránni og að túlkun landsdóms hafi verið í samræmi við anda laganna. Þar af leiði að Geir hafi mátt vera ljóst að gjörðir hans gætu skapað honum refsiábyrgð.

Þá slær dómurinn því föstu að hætta af risavaxinni og fordæmalausri stærðargráðu hafi steðjað að velferð þjóðarinnar og að það hafi augljóslega verið „mikilvægt stjórnarmálefni“ í skilningi 17. greinar stjórnarskrárinnar. Viðkvæm staða á fjármálamörkuðum gæti ekki afsakað það að Geir hafi vanrækt að ræða þessa miklu hættu á fundum með ráðherrum, enda hafi slíkir fundir verið hugsaðir sem vettvangur fyrir umræður ráðherra í fullum trúnaði.

Geir hélt því raunar fram að þessi atriði hafi verið rædd á ráðherrafundum, en dómurinn hafnar því með vísan til sönnunargagna, meðal annars fundargerða ríkisstjórnarinnar frá þessu tímabili.

Tekur undir með sératkvæði landsdóms

Pólski dómarinn Krzysztof Wojtyczek skilar hins vegar sératkvæði undir seinni liðnum um skýrleika refsiheimilda. Hann áréttar að hann telji að Geir hafi sannarlega haft augljósa siðferðislega skyldu til að reyna að koma í veg fyrir hrun efnahagskerfisins eða reyna að draga úr afleiðingum þess og að almenningur hafi réttilega túlkað skort á viðbrögðum yfirvalda sem alvarlegan misbrest á gangverki hins opinbera.

Hins vegar hafi stjórnarskráin ekki lagt þá skýru skyldu á herðar Geirs að boða til fundar með ráðherrum um mikilvæg mál um leið og þau komu upp. Hann hafi því ekki mátt gera sér grein fyrir því að hann væri hugsanlega að baka sér refsiábyrgð með því að sleppa því. Hann vísar í sératkvæði fimm dómara við landsdóm, þeirra Ástríðar Grímsdóttur, Benedikts Bogasonar, Fannars Jónassonar, Garðars Gíslasonar og Lindu Rósar Michaelsdóttur, og segir sératkvæði þeirra svo sannfærandi að erfitt sé að vera ósammála því.

Wojtyczek segist raunar einnig hafa verið hikandi í að taka undir niðurstöðu annarra dómara í fyrri liðnum.

Geir hefur nú þrjá mánuði til að ákveða hvort óskað verður eftir því að yfirdeild dómstólsins (e. Grand Chamber) taki málið fyrir. Sé þess óskað fer málið fyrir nefnd sem ákveður hvort ástæða sé fyrir yfirdeildina til að taka málið til skoðunar að nýju.

Þrír aðrir sluppu við ákæru

Alþingi samþykkti í september 2010, með 33 atkvæðum gegn 30, að ákæra Geir, eins og meirihluti þingnefndar sem skipuð var í kjölfar útgáfu rannsóknarskýrslu Alþingis hafði lagt til. Nefndin lagði til að ákæra einnig þrjá aðra; Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Árna Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson, en atkvæði féllu þannig á þinginu þennan dag að þau sluppu öll við ákæru.

Ákæran á hendur Geir var þingfest í júní 2011 og dómur féll í landsdómi 23. apríl 2012, eftir að tveimur ákæruliðum af sex hafði verið vísað frá. Landsdómur sýknaði Geir af þremur þeirra ákæruliða sem eftir stóðu en sakfelldi fyrir einn, þar sem hann var ákærður fyrir að hafa ekki haldið ríkisstjórnarfundi um mikilvæg stjórnarmálefni í aðdraganda bankahrunsins 2008. Þetta var álitið brot gegn 17. grein stjórnarskrárinnar, sem kveður á um skyldu til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni.

Geir kærði málið til Mannréttindadómstólsins í október 2012 og rúmu ári síðar, í lok nóvember 2013, ákvað dómstóllinn að taka málið fyrir.