Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Geir sekur af einum ákærulið

23.04.2012 - 14:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Geir H. Haarde hefur verið dæmdur sekur um einn ákærulið í landsdómsmálinu. Hann hefði átt að halda fleiri ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni fyrstu mánuði ársinis 2008 þegar bankahrun blasti við.

Ákæruliðirnir í málinu snéru allir að því að Geir hafi í störfum sínum sem forsætisráðherra sýnt af sér alvarlega vanrækslu andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði.

Landsdómur kvað upp úrskurð sinn klukkan tvö. Dómurinn er á fimmta hundrað blaðsíður og verður birtur í heild sinni á vef landsdóms síðar í dag.  Geir verður ekki gert að sæta refsingu.

Ákæruliðurinn sem Geir gerðist sekur um var að láta undir höfuð leggjast að framkvæma það sem fyrirskipað er í 17. gr. stjórnarskrár lýðveldisins um skyldu til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Á fyrstu mánuðum ársins 2008 var lítið fjallað á ráðherrafundum um hinn yfirvofandi háska, ekki var fjallað formlega um hann á ráðherrafundum og ekkert skráð um þau efni á fundunum.

Var þó sérstök ástæða til þess, einkum eftir fund hans, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, Árna M. Mathiesen og formanns stjórnar Seðlabankans 7. febrúar 2008, eftir fund hans og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur með bankastjórn Seðlabankans 1. apríl 2008 og í kjölfar yfirlýsingar til sænsku, dönsku og norsku seðlabankanna sem undirrituð var 15. maí 2008. Forsætisráðherra átti ekki frumkvæði að formlegum ráðherrafundi um ástandið né heldur gaf hann ríkisstjórninni sérstaka skýrslu um vanda bankanna eða hugsanleg áhrif hans á íslenska ríkið.

Þá hættu hafi hann vitað af, eða hefði átt að vita af, og hann hefði átt að bregðast við henni með því að beita sér fyrir aðgerðum, löggjöf, útgáfu almennra stjórnvaldsfyrirmæla eða taka stjórnvaldsákvarðanir á grundvelli gildandi laga.

Á fimmta tug vitna voru kölluð fyrir dóminn og hann hefur einnig fengið mörg þúsund blaðsíður af gögnum til að fara yfir. Hægt er að nálgast alla umfjöllun RÚV um málið hér .