Í lok ágúst 1993 var haldin ráðstefna um geimverur og fljúgandi furðuhluti í Háskólabíói. Fullt var út úr dyrum á ráðstefnunni sem tengdist að einhverju leyti sýningum á kvikmyndinni Fire in the Sky, eða Eldur á himni, sem byggir á sannsögulegum atburðum að sögn sem gerðust í Bandaríkjunum árið 1975.
Á því ári var einstaklingur numinn á brott af geimverum og skilað til baka nokkru seinna. En í Bandaríkjunum er nokkuð þekkt fyrirbæri að fólk segist hafa verið rænt af geimverum sem gert hafi furðulegar tilraunir á því í fljúgandi diskum.
Allmargir þeir sem segja sögur sem þessar lýsa geimverunum á sama hátt: Sem gráleitum, hárlausum, smávöxnum, hausstórum verum með skásett svartleit augu. Sú tegund af geimverum er nokkurs konar staðalímynd geimvera í Bandaríkjunum sem birtist stöðugt í bíómyndum, sjónvarpsþáttum og bókum og eru kallaðar „greys“, eða gránur. Og það má segja að þetta geimveruútlit, sem allir þekkja, hafi verið eitt af mest áberandi táknum í fjöldamenningu tíunda áratugarins. Á áðurnefndri ráðstefnu var rætt um slíkar geimverur og margir töluðu um að koma út úr skápnum hvað varðar trú á geimverur. Einna mesta athygli vakti frásögn manns sem sagðist hafa séð geimfar lenda þegar hann var í berjamó á Snæfellsnesi. Nokkrar kindur urðu vitni að þessu ásamt honum. „Ég hugsaði nú með mér að það hlyti eitthvað að vera bilað hjá karlagreyjunum,“ sagði maðurinn um litlu, grænu mennina sem stigu út úr farinu.
En langmesta athygli á ráðstefnunni vakti annað mál. Sagt var að fjöldi fólks víðsvegar í veröldinni væru í beinu eða huglægu sambandi við verur frá öðrum hnöttum og sólkerfum. Og geimverur hefðu nú, í gegnum þetta fólk, boðað komu sína til Íslands, í nóvember þetta sama ár. Þetta kallaði á flennifyrirsagnir í blöðunum. „Geimverur væntanlegar til Íslands í nóvember“ stóð í DV.
Fylgist með Lemúrnum á heimasíðu hans. Lemúrinn er líka á Facebook.