Gefur listinni blóð

Mynd: . / .

Gefur listinni blóð

05.05.2017 - 16:01

Höfundar

Ítalski gjörningalistamaðurinn Franko B var staddur hér á landi síðustu tvær vikur, og stýrði 10 daga vinnubúðum sem meistaranemar í sviðslistadeild Listaháskóla Íslands tóku þátt í. Víðsjá leit við og ræddi við Franko.

Það má segja að tíminn hafi leikið stórt hlutverk í vinnubúðunum sem haldnar voru á Kolsstöðum í Borgarfirði, í ljósmenningarhúsinu svokallaða. Tíminn lék þar hlutverk, en skipti jafnframt engu máli. Þátttakendur tókust á við ýmsar áskoranir, svo sem að treina sér eina skál af spagettíi í þrjár klukkustundir. Faðmast í hálftíma, tvö og tvö. Horfast í augu í klukkustund. Þegja í fjóra sólarhringa. Og til að byrja með voru þau öll bundin saman, dag og nótt.

Blóðsúthellingar og spurningar um lífið

Listamaðurinn á ekki að þjást, heldur spyrja spurninga um hvað það þýðir að vera á lífi, segir gjörningalistamaðurinn Franko B. Hann er þekktastur fyrir líkamstengda gjörninga sína, sem gjarnan fela í sér blóðsúthellingar. Til dæmis má nefna gjörninginn Aktion 398 þar sem áhorfendum var hleypt inn í herbergi til Frankos, einum í einu, þar sem hann var nakinn, hvítmálaður, með plastkraga - eins og veikir hundar nota - og stórt svöðusár á síðu. Í tvær mínútur gafst áhorfendum tækifæri til þess að eiga með honum stund, sem þeir nýttu að vild. Í öðrum gjörningi, sem hann kallaði I Miss You eða Ég sakna þín, gekk hann fram og til baka á tískusýningarpalli, hvítmálaður og nakinn, og smám saman fór honum að blæða. Í olnbogabótum hans voru fest hylki sem notuð eru við blóðtöku og úr þeim blæddi. Hann kreppti hnefana og sleppti á víxl, til að auka blóðflæði.

Franko segir sjálfur að útgangspunktur listar hans sé lífið - hann sé sinn eigin strigi og blóðið, svitinn, sársaukinn og óttinn sé það sem knýi hann áfram. Það má þó líka setja áráttu hans tengda blóði í pólitíkst samhengi. Franko hefur sóst eftir því að gefa blóð í góðgerðarskyni, en þar sem hann er opinberlega samkynhneigður má hann það ekki. Þess vegna ákvað hann að gefa blóð sitt listinni. Og hann hefur valdið usla í samfélagi samkynhneigðra, þar sem hann leyfði blóði sínu að flæða í gjörningum, þegar óttinn við HIV-veiruna var sem mestur. Sjálfur hefur hann ekki smitast af veirunni, en kjaftasögur þess efnis lifa þó góðu lífi.