Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Gefur kost á sér áfram

04.03.2012 - 14:09
Mynd með færslu
 Mynd:
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands hefur ákveðið að gefa kost á sér áfram sem forseti Íslands. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hann sendi fjölmiðlum.

Í yfirlýsingunni segist hann breyta ákvörðuninni sem hann hafi tilkynnt í nýársávarpinu. Þannig taki hann til greina áskoranir sem honum hafi borist og birst, en þar sé vísað til vaxandi óvissu varðandi stjórnskipun landsins og stöðu forseta í stjórnarskrá, umróts á vettvangi þjóðmála og flokkakerfis, sem og átaka um fullveldi Íslands.

„Í ljósi alls þessa og í kjölfar samráðs okkar hjóna og fjölskyldunnar hef ég ákveðið að verða við þessum óskum og gefa kost á því að gegna áfram embætti forseta Íslands sé það vilji kjósenda í landinu.“

Verði Ólafur Ragnar hlutskarpastur í forsetakosningunum sem fram fara 30. júní mun hann hefja sitt fimmta kjörtímabil í embætti forseta Íslands, og þar með verða sá forseti lýðveldisins sem lengst hefur setið í embætti.