
Gefur ekki kost á sér en býst við framboðsslag
Áslaug sagði að þessi ákvörðun hennar væri í samræmi við yfirlýsingar hennar þegar hún tók tímabundið við embættinu í haust. Þá sagðist hún ætla að gefa kost á sér áfram sem ritari flokksins. „Þetta hafa auðvitað verið frekar óvenjuleg ár – tvær alþingiskosningar og við misstum okkar öflugustu stjórnmálakonu – þannig að mig langar mikið að halda áfram að sinna því starfi,“ sagði Áslaug.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið án kjörins varaformanns síðan Ólöf Nordal féll frá í febrúar í fyrra. Nýr varaformaður verður kosinn á landsfundi sem fram fer helgina 16. til 18. mars og Þórdís hefur ein gefið kos á sér í embættið. Áslaug segir að sér lítist mjög vel á framboð Þórdísar en segist aðspurð búast við að hún fái mótframboð.
„Já, ég mundi nú telja það. Það er ólíklegt þegar það er laus staða í forystu Sjálfstæðisflokksins að ekki sé tekist á um hana. Ég mundi telja að það væri líklegra en ekki en það er aldrei að vita,“ sagði Áslaug.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, var einnig gestur Vikulokanna. Hún gegndi um skeið embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins og þáttastjórnandinn Helgi Seljan spurði hana hvort það væri „gott djobb“. Þorgerður sagði að svo væri og óskaði Þórdísi Kolbrúnu velfarnaðar í þeim störfum sem hún væri að takast á hendur.