Geðheilbrigðismál í fangelsum í ólestri

12.01.2019 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Í meira en fimm ár hefur enginn geðlæknir starfað í íslenskum fangelsum, þrátt fyrir að lögum samkvæmt skuli föngum tryggð geðheilbrigðisþjónusta. Á tveimur árum hafa þrír fangar svipt sig lífi.

Rösklega fertugur karlmaður svipti sig lífi í fangelsinu að Litla-Hrauni á þriðjudag. Þetta er þriðja sjálfsvígið á tveimur árum sem vitað er um í fangelsum á Íslandi.

Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir að geðheilbrigðismál í íslenskum fangelsum séu í ólestri. „Það eru fjórir sálfræðingar sem eiga að sinna yfir 1000 skjólstæðingum fangelsisstofnunar og það segir sig sjálft að það eru auðvitað allt of fáir og það er margra vikna bið eftir sálfræðitíma, það er enginn geðlæknir starfandi á Litla-Hrauni, og með hliðsjón af því að 50 til 75 prósent af afplánunarföngum eiga við geðrænan vanda þá er þetta algjörlega ótækt ástand.“

Samkvæmt DV var maðurinn dæmdur í tólf mánaða fangelsi í janúar í fyrra fyrir að aka ítrekað án ökuréttinda og undir áhrifum fíkniefna. Fram kemur í dómi héraðsdóms að samkvæmt sakavottorði hafi hann áður gerst brotlegur við umferðarlög, en ekki önnur hegningarlög. 

„Ég get ekki talað um einstaka mál en það er skortur á þjónustu fyrir fólk með tvíþættan vanda, það er að segja geðrænan vanda og vímuefnavanda, þar sem unnið er á báðu samtímis.“

Dómsmálaráðuneytið hefur bent á að mannréttindi fanga á Íslandi séu ekki tryggð vegna skorts á geðheilbrigðisþjónustu í fangelsisstofnunum landsins.

Páll Winkel fangelsismálastjóri sagði í viðtali við Morgunútvarpið í desember að stundum fengju andlega veikir fangar ekki reynslulausn þar sem ekki væru til neinir dvalarstaðir fyrir þá. Páll nefndi sem dæmi fanga sem hafi framið sams konar brot. Annar fái reynslulausn en ekki hinn veiki, sá sé látinn ljúka afplánun dóms. 

„Á hverjum tíma þá eru svona tveir til þrír fangar í fangelsum sem ættu með réttu að vera á heilbrigðisstofnun, en einhverra hluta vegna þá hefur spítalinn oft ekki treyst sér til þess að taka alvarlega veika fanga til sín þrátt fyrir algjörlega ljósa lagastoð í þeim efnum,“ segir Anna. 

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi