Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gauti leitar inn á við

Mynd: Atli Þór Ægisson / RÚV

Gauti leitar inn á við

06.10.2018 - 13:30

Höfundar

Á fimmtu breiðskífu sinni, sem kallast 5, lítur Emmsjé Gauti um öxl og vegur og metur líf sitt og feril. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.

Þessi plata ber öll þess merki að vera eftir þroskaðan listamann, eftir mann sem hefur séð eitt og annað á gifturíkum ferli. Ekki bara að maður heyri það á tónlistinni, heldur fjalla textarnir margir hverjir um einmitt þetta. Emmsjé Gauti hefur nú í allnokkra hríð verið með helstu burðarstólpum íslensku rappsenunar, sjarmerandi gaur sem er okkar allra. Hann hefur gefið út plötur, haldið tónleika, búið til myndbönd, haslað sér völl á jólatónleikamarkaði – og meira að segja gefið út tölvuleik. Öllu þessu snarar hann upp með brosi á vör og töfrandi bliki í augum.

Ólíkt

Plöturnar hafa verið ólíkar. Vagg & Velta var nánast eins og yfirlýsing um hver væri aðal, hlaðborð þar sem helstu rapparar landsins dýfðu sér, veisla sem Gauti stýrði með styrkri hendi. Það þarf ákveðna persónueiginleika til að draga saman alla þá ólíku þræði sem þar voru, eitthvað sem Gauti gerði eins og að drekka vatn. Sautjándi nóvember, sem kom út sama ár (2016) var hins vegar strípaðri en inniheldur risasmellina „Þetta má“ og „Svona er þetta“. Hvað nýjustu plötuna varðar hefur Gauti staðfest það sem maður finnur fyrir, það sé talsvert öðruvísi að „vinna rappplötu sem fjölskyldumaður en sem glaumgosi og djammari“ og að platan sé „þroskaðri en fyrri verk vegna þess að hann sé einfaldlega orðinn eldri og semji á annan hátt.“

Þannig er platan róleg og grallaragríni og „bangerum“ er sleppt. Sálarríkt gáfumannarapp? Mörg lagana eru með sterkum „r og b“ blæ, flæðið er þægilegt og höfugt út í gegn, svona alla jafna. Textalega er þetta eins og að fletta dagbók. Gauti leyfir sér að vera mjúkur og einlægur, og það hefur alla tíð verið hans kostur, að leyfa sér að vera berskjaldaður. Í „Mér líður vel“ talar hann m.a. um dóttur sína og almenna sátt við alla þá hluti sem við gerum í hversdeginum. En um leið sendir hann inn setningar sem storka þessu („Nettur gaur með viðkvæmt hjarta“ og „ég er ekki með allt á hreinu“). Steingrímur Teague leggur til sína fallegu rödd á „Korter“, hugleiðing um djammtilveruna og á „Steinstjarna pt. 2“ segir m.a. „Ég á milljón trilljón verðlaun/Gleymi að vinna í mér“, viðurkenning á að þrátt fyrir frægð og frama eigi menn til að gleyma því að næra sjálfið í miðjum asanum.

Hugsað

Á 5 lítur Emmsjé Gauti yfir sviðið, hugsar um allt það sem runnið hefur í gegn á ævintýralegum ferli, og setur það fram í skýrum textum og einlægum. Fyrsta lagið kallast „Hræddur“, þar sem óttinn er settur upp á borð („ég ætla ekki að vera gamall kall í sama geira“) og plötunni lýkur með laginu „Hættur“. Þar segir m.a.: „Núna er ég beisik bitsj með mín mál uppi á borðinu.“ Eins og heyra má.

Tengdar fréttir

Andsetinn Emmsjé Gauti

Tónlist

Gauti gíraður í landsbyggðina

Tónlist

Gefa út ábreiður og óska eftir tillögum