„Gátum ekki horft fram hjá þessum veikindum um borð“

Mynd með færslu
Um borð í Hrafni Sveinbjarnarsyni í gærkvöld Mynd: Aðsend - RÚV
Talsverður viðbúnaður var í gærkvöld þegar togarinn Hrafn Sveinbjarnarson kom til hafnar í Vestmannaeyjum í gær. Mikil veikindi hafa herjað á áhöfnin að undanförnu, 18 af 26 í áhöfninni hafa orðið veikir og því þótti skipstjóranum réttast að láta athuga hvort COVID-19 veiran hefði stungið sér niður um borð. Fjórir úr áhöfninni dvelja nú í sérstöku sóttkvíar-húsnæði í Eyjum en hinir fara ekki frá borði.

Talsverður viðbúnaður var þegar togarinn kom til hafnar í gærkvöld. Heilbrigðisstarfsfólk fór um borð til að taka sýni í viðeigandi hlífðarbúnaði.

„Það voru sýni tekin úr sex,“ segir Valur Pétursson, skipstjóri togarans, í samtali við fréttastofu.  Skæð flensa hefur herjað á áhöfnina að undanförnu, 18 af 26 í áhöfninni hafa orðið veikir undanfarnar vikur. „Við komum til hafnar í Grindavík 10. mars eftir að hafa verið tvær vikur úti og fórum síðan aftur út strax um kvöldið,“ segir Valur. 

Hann segir flensuna hafa haft veruleg áhrif á áhöfnina. Þeir fjórir sem nú eru í sóttkví í Eyjum hafi til að mynda alveg legið og ekkert getað unnið.  „Hún hefur herjað alveg ótrúlega mikið á okkur.“  Það hafi síðan ekki verið hægt að horfa fram hjá möguleikanum á að COVID-19 veiran hefði stungið sér þarna niður og því var tekin sú ákvörðun að sigla til Eyja og láta taka þar sýni.

Valur segir að þeir bíði nú eftir niðurstöðum en von er á þeim síðar í kvöld. Þangað til bíður áhöfnin um borð.  „Við tökum enga áhættu,“ segir Valur en það er lán í óláni að bræla er á miðunum. „Og hefur verið síðan í janúar.“

Uppfært

Lögreglan í Vestmannaeyjum hefur sent frá sér tilkynningu vegna málsins.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi