
Garnaveiki fannst í Hróarstungu
Garnaveiki er ólæknandi sjúkdómur í jórturdýrum og gilda ýmsar takmarkanir um bæi þar sem hún greinist. Garnaveikin fannst við eftirlit dýralæknis í sláturhúsi og fannst í fimm sýnum af níu.
Kallar á bólusetningu
Eyrún Arnardóttir héraðsdýrlæknir heldur fund með bændum í Hróarsstungu í kvöld til að ræða viðbrögð. Hún segir að þetta sé áfall fyrir bændur á svæðinu. Hún muni leggja til að bólusett verði fyrir veikinni í Hróarstungu en einnig sé mikilvægt að heyra skoðanir bænda. Matvælastofnun greini nú sýni frá innstu bæjum í Hróarstungu og meti hvort ástæða sé til bólustetningar víðar í svokölluðu Héraðshólfi en því tilheyra einnig Fell, austurhluti Jökuldals og norðurhluti Fljótsdals. Nú þegar sé bólusett við garnaveiki á Jökuldal, í Jökulsárhlíð og þá sé valkvæði bólusetning í Skriðdal.
Mega ekki láta frá sér líffé
Garnaveiki berst með bakteríu sem veldur hægafar vanþrifum og skituköstum. Komi hún upp getur verið nokkuð um skepnur sem eru sýktar en sýna ekki greinileg einkenni og meðgöngutími í sauðfé eru eitt til tvö ár. Sýklarnir berast út með saur og geta lifað lengi í óhreinindum í pollum við gripahús, í sláturúrgangi og í hræjum af skepnum sem drepast út í haga.
Óheimilt er að láta til lífs sauðfé, geitur eða nautgripi frá garnaveikibæjum í tíu ár frá síðustu greiningu. Ekki má hýsa, fóðra né brynna aðkomufé með heimafé á garnaveikibæjum og ekki má flytja þaðan áburð, he, túnþökur né gróðurmold eða óunna ull.