Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ganga ekki að tilboði í Laugar

17.07.2018 - 10:57
Laugar í Dölum, Sæljngsdalur
 Mynd: lonelyplanet.com - Lonely Planet
Sveitarstjórn Dalabyggðar hefur samþykkt að taka ekki tilboði Arnarlóns ehf. um kaup á Laugum. Ólga hafði verið meðal hluta íbúa vegna mögulegrar sölu því að til greina kom að sveitarfélagið myndi lána kaupandanum fyrir tæpum helmingi kaupverðsins. 213 íbúar skrifuðu í vor undir ályktun þar sem lánveitingu Dalabyggðar til Arnarlóns var mótmælt.

Þegar Laugar og jörðin Sælingsdalstunga voru auglýstar til sölu kom eina tilboðið frá Arnarlóni. Upphaflega hljóðaði tilboð fyrirtækisins upp á 460 milljónir og að Dalabyggð myndi lána fyrir hluta greiðslunnar. Samkvæmt því tilboði áttu skuldabréf Dalabyggðar að vera á þriðja veðrétti. Sveitarstjórnin setti þau skilyrði að þau yrðu á fyrsta og öðrum veðrétti. Viðræðum var slitið 18. apríl vegna ágreinings um veðréttinn. Í maí barst svo annað tilboð frá Arnarlóni sem fól í sér að jörðin Sælingsdalstunga yrði undanskilin og að kaupverðið lækki sem henni nemur og verði 405 milljónir króna. Fyrirtækið fengi aftur á móti kauprétt að þeim hluta Sælingsdalstungu sem ætlaður er fyrir frístundabyggð og golfvöll. Í nýrra tilboðinu voru skuldabréf Dalabyggðar á öðrum veðrétti.

Ný sveitarstjórn fjallaði um málið á fundi sínum 12. júlí og samþykktu fimm af sjö sveitarstjórnarmönnum að ganga ekki að síðara tilboði Arnarlóns. Fráfarandi sveitarstjórn taldi að tilboðið væri ágætlega til þess fallið að ganga frá sölunni. Eyjólfur Ingvi Bjarnason safnaði undirskriftunum gegn lánveitingu og sölu til Arnarlóns fyrir kosningar í vor. Þá var hann fyrsti varamaður sveitarstjórnar en er nú oddviti. Hann sagði í samtali við fréttastofu að sala Lauga og Sælingsdalstungu væri nú í biðstöðu.