Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Gamlar herstöðvar á Grænlandi hreinsaðar

14.01.2018 - 18:36
Mynd: Danmarks Radio / Danmarks Radio
Danir og Grænlendingar hafa náð samkomulagi um að hreinsa gamlar herstöðvar Bandaríkjanna á Grænlandi. Bandaríski herinn skildi eftir mikið af alls kyns drasli sem bæði getur verið hættulegt og mengað umhverfið, í herstöðvum sem nú hafa verið yfirgefnar. Danska stjórnin hefur fallist á að greiða sem svarar um þremur milljörðum íslenskra króna til fjarlægja þetta drasl. Danir hafa reynt að fá Bandaríkjamenn til að greiða fyrir hreinsunina, en hafa farið bónleiðir til búðar.

Olíutunnur og bílhræ

Alls mun rusl frá bandaríska hernum vera að finna á tugum staða á Grænlandi. Þetta eru bílhræ, húsarústir, ryðgaðar olíutunnur og margt fleira. Kim Kielsen, formaður grænlensku landsstjórnarinnar, lýsti ánægju með samninginn.

,,Þetta hefur mikla þýðingu fyrir okkur, okkur er ekki samboðið að þarna séu meira en hundrað þúsund tunnur sem ryðga niður og alls kyns aðrir hlutir," sagði Kielsen við danska ríkisútvarpið.

Grænlendingar telja Dani bera ábyrgð

Esben Lunde Larsen, umhverfisráðherra Dana og Kim Kielsen, undirrituðu samninginn. Grænlendingar telja Dani bera ábyrgðina því þeir leyfðu Bandaríkjamönnum að koma sér fyrir á Grænlandi árið 1941 í síðari heimsstyrjöldinni.1951 var svo gerður samningur um hervernd Bandaríkjanna. Meðal þeirra staða sem nú á að hreinsa eru Marraq sunnan Nuuk og Ikaateq, nærri Tasiilaq og Kulusuk á Austur-Grænlandi.

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV