Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Gamla verbúðin fær nýtt hlutverk

03.04.2018 - 12:02
Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV/Landinn
„Við vorum að leita okkur að húsi á Íslandi á landsbyggðinni, við bjuggum í London, og við fórum á netið og litum á það sem var í boði og urðum ástfangin af húsinu. Bara út frá myndunum. Og við komum til Íslands til að skoða það og vorum hrifin, lögðum fram tilboð og keyptum húsið,“ segir Julie Gasiglia, hönnuður.

Það var því húsið sem réði staðsetningunni og Julie og Aron Ingi Guðmundsson, sérkennslustjóri og blaðamaður, fluttu á Patreksfjörð í september 2016. Húsið heitir Merkisteinn og var byggt árið 1898.

Aron Ingi og Julie hafa tekið til hendinni, opnað rýmið og lagað að sér. En þau létu ekki þar við sitja. „Þetta hús er aðeins of stórt fyrir okkur svo við ákváðum að breyta tveimur svefnherbergjum sem voru á þessari hæð í Húsið. Húsið er samkomustaður. Þar hafa verið haldin námskeið og klúbbar eins og bókaklúbbur, ljósmyndaklúbbur sem og smakk- og vínylkvöld.“

Lilja Sigurðardóttir sem býr á Patreksfirði segir Húsið henta vel. Sérstaklega yfir vetrartímann þegar ekki margir staðir eru opnir á Patreksfirði. Húsið er góð leið til að hitta fólk og nýtt fólk.

„Fyrsta hugmyndin var að tengja rými Hússins við hinn skapandi heim og þá hönnun sérstaklega,“ segir Julie. „En okkur fannst vanta frekar að opna samkomuhúsið fyrst. Til að kynnast fólkinu og skilja allt samfélagið betur. Svo vorum við tilbúin að stíga næsta skref." Julie og Aron Ingi spurðust fyrir hjá bænum og var bent á gamla verbúð á eyrinni á Patreksfirði sem var síðast notuð sem beitingaskúr. Þau fengu afhent í febrúar og hafa síðan þá tekið til hendinni.

Gamla verbúðin á að hýsa sýningarsvæði, litla verslun en líka vinnuaðstöðu fyrir listafólk, hönnuði, rithöfunda - alla sem vilja koma og fá næði. Aron Ingi og Julie fengu styrk frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða til að standa fyrir menningardagskrá.

„Ég held að allir staðir geti hagnast á svona aðstöðu,“ segir Julie. „Með því að bjóða fólki að koma og að það blandist heimafólki getur bara auðgað mannlífið í röðum beggja. Ég held að þetta gæti orðið virkilega gott fyrir Patreksfjörð.“

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
eddasif's picture
Edda Sif Pálsdóttir